132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:41]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi spurning er auðvitað langt fyrir utan það efni sem hér er verið að ræða. Eftir á að hyggja hefðu sjálfsagt ýmsir getað lagt fram ýmsar hugmyndir um hvernig Íbúðalánasjóður hefði getað ráðstafað uppgreiðslunum. Það er það sem þingmaðurinn er að tala um, uppgreiðsluféð. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort þetta hefði verið ein af þeim leiðum sem fara hefði mátt. En eins og forsætisráðherra sagði hér fyrr í dag í umræðum um efnahagsmál er verið að fara yfir öll málefni Íbúðalánasjóðs um þessar mundir og þar með væntanlega hvernig best er að ráðstafa þeim peningum sem inn koma vegna uppgreiðslna.