132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hér talað fyrir fjárlagafrumvarpi sínu og nefnir þar margt til og sumt gott. Vissulega er það fagnaðarefni að staða ríkissjóðs sem slíks sé góð og skuldir ríkissjóðs sem slíks fari lækkandi.

Hins vegar held ég að hæstv. ráðherra hafi rækilega stungið hausnum í sandinn varðandi stöðugleikann í efnahagslífinu. Seðlabankinn talar um vaxandi óstöðugleika, mjög sérkennilegt orðalag að tala um vaxandi óstöðugleika. Verkalýðshreyfingin segir að kjarasamningar séu í uppnámi vegna þess að verðbólga sé mun meiri en viðmiðunarmörk voru sett við gerð kjarasamninga.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra vilji ekki kaupa sér áreiðanleikakönnun á þetta fjárlagafrumvarp. Seðlabankinn hefur gagnrýnt það og aðrir aðilar á fjármálamarkaði gagnrýnt það, að það sé óraunhæft.

Lítum á eitt atriði, bara gengismálin. Fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir því að gengisvísitalan væri 132–135, það væru forsendur þeirra fjárlaga. Hún reynist 121. Í forsendum fjárlaga fyrir þetta ár var gert ráð fyrir 122–125 í gengisvísitölu. Hún verður líklega undir 110 og spáin fyrir næsta ár að hún verði 114, 115. Er hún ekki jafnóraunhæf og allar þær spár sem hafa áður gilt?

Er ráðherra reiðubúinn að kaupa sér áreiðanleikakönnun því að hér er tekist á um trúverðugleika? Þar þarf ríkisvaldið að ganga fram með góðu fordæmi.