132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi aðeins að það þyrfti að vera tvöfalt meira, það þyrftu að vera aðrir 14 milljarðar. Hann nefndi hins vegar ekki hvernig hann mundi þá dreifa því á tekjuhliðina og gjaldahliðina og hvað ætti að ná miklum árangri í landsframleiðslunni.

Hann nefndi líka að óraunsætt væri að leggja upp með þetta vegna aðhaldsleysis, sagði hann. Hann hefur vitnað mikið til greiningardeildanna í ræðum sínum í dag. Ef það er eitthvað eitt sem greiningardeildirnar eru sammála um þá er það að mjög mikið aðhald sé á útgjaldahliðinni í frumvarpinu. Það held ég að þær hafi allar sagt, að mjög mikið aðhald sé á útgjaldahliðinni. Er í lagi að vitna bara stundum í greiningardeildirnar og trúa þeim og stundum ekki?

Síðan, sem er auðvitað lykilspurning í þessu líka, segir hann að aðhaldið þyrfti að vera töluvert meira, það þyrftu að vera 14 milljarðar í viðbót. Er hann þá að miða við að hagvöxtur verði 4,7% eins og forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir? Eða er hann að miða við að hagvöxtur verði annar, eins og einhverjir aðrir spá? Er hann þá með einhverja aðra tölu í huga?