132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:45]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér í 1. umr. fjárlaga fyrir árið 2006. Það er athyglisvert og rétt að hafa orð á því hér í upphafi að við kynningu þessara fjárlaga hafa margir aðilar þjóðfélagsins verið að tjá sig um þau. Margar hagdeildir hafa komið þar að verki og nokkuð lengi. Segja má að ákveðinn samhljómur sé í mjög mörgu, t.d. því sem hefur komið frá Seðlabankanum, greiningardeildum bankanna, Hagfræðistofnun háskólans, aðilum vinnumarkaðarins og mörgum fleiri. Það er svona gegnumgangandi í þeirra tali að það verði að vera meira aðhald í ríkisfjármálunum en þetta frumvarp sýni.

Ég tók eftir því í morgun þegar ég las Morgunblaðið að á bls. 2 þar er lítil grein sem heitir „Ójafnvægi er í efnahagsmálunum“.

Þar segir frá ályktun ASÍ. Þar stendur í umfjöllun þeirra um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Þetta gerist þrátt fyrir að ASÍ, Seðlabankinn og fleiri aðilar hafi kallað eftir ábyrgri efnahagsstefnu og meiri festu í ríkisfjármálum.“

Og svo áfram, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ skorar á ríkisstjórn og Alþingi að taka með ábyrgum hætti þátt í efnahagsstjórninni og beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að það dragi úr þörf fyrir harkalegar aðgerðir Seðlabankans í peningamálum samhliða því sem verðbólga lækki.“

Virðulegi forseti. Í sömu grein er viðtal við þann ágæta mann, Grétar Þorsteinsson, forseta ASÍ. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem er athyglisvert í þeirri stöðu er að við höfum ekkert verið einir með það viðhorf. Seðlabankinn hefur ítrekað áréttað þetta, sama er að segja um OECD og greiningardeildir bankanna. Ég man raunar ekki eftir því að það hafi áður verið svona sameiginlegur tónn eiginlega allra aðila um að stjórnvöld þyrftu að taka með afdráttarlausari hætti á.“

Þetta er mjög óvenjulegt og athyglisvert, allrar athygli vert. Ég held að það sé mikil þörf á því að menn átti sig á því og spyrji eftir því hvað menn vilja ef það er svo mikill samhljómur í þjóðfélaginu um að enn eigi að taka hér á í ríkisfjármálunum. Við gerum þá ábyggilega ekkert þarfara núna í þessari umræðu en reyna að átta okkur á því hvað þessi ríkisfjármál eru. Í fjárlagafrumvarpinu á bls. 264 er yfirlit yfir hagræna skiptingu ríkisfjármálanna. Við skulum fara yfir hana hér, virðulegi forseti, og átta okkur á því hvað um er að ræða.

Þar sjáum við, ef við tökum þessa þætti, að fjármagnskostnaður ríkisins hefur mjög farið lækkandi. Það er reyndar þannig, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að fjármagnstekjurnar eru meiri en gjöldin þannig að þetta hefur mjög mikið lækkað, verulega mikið lækkað.

Ef við tökum viðhaldið þá er það nokkurn veginn hið sama og það var áður þannig að varla breytir það nú miklu.

Í þriðja lagi verðum við að taka eftir því að fjárfestingar ríkisins eru að dragast verulega saman og eru núna nærri því í sögulegu lágmarki. Þær eru orðnar mjög litlar eða um 13,4 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem er sögulegt lágmark, 1,3% af vergri landsframleiðslu. Varla geta það því verið slíkir þættir — ég trúi því nú varla — sem menn eiga við í þessari umræðu um meira aðhald í ríkisfjármálunum, sem að vísu stjórnarandstaðan er, að ég reyndi að giska á eftir að hafa hlustað á ræður hér áðan, að taka undir. Ég er þó ekki alveg viss því að ég var ekki alveg viss um hvað þeir vildu sagt hafa. En það er athyglisvert ef t.d. stjórnarandstaðan vill fara í að skera niður opinberar framkvæmdir enn frekar úr þessum 13,2 milljörðum og þá á að skoða það í fullri einlægni, þ.e. ef menn sjá þörf á því.

Hins vegar liggur fyrir hver þessi útgjöld eru. Útgjöldin eru rekstur ríkisins, sem er 150 milljarðar, og svo rekstrartilfærslurnar eða til atvinnuveganna og neyslutilfærslurnar sem eru 132 milljarðar. Þetta eru útgjöld ríkisins.

Ef við tökum rekstur ríkisins — það má svo sem fjalla um það á margan hátt — þá er alveg sama hvernig það er gert, menn fá alltaf þá niðurstöðu að af þessum rekstri eru um það bil 70% laun, alveg sama hvernig það er reiknað. Og ef tilfærslurnar eru teknar fæst nokkurn veginn það sama út, 70% þeirra eru mjög háð launum beint eða óbeint eða alveg beint. Það geta því allir séð af þessu að launagreiðslur ríkisins eru hinn stóri faktor sem ræður því fyrst og fremst hver þróun ríkisfjármálanna er, þ.e. fjölgun ríkisstarfsmannanna og hækkun launa þeirra. (Gripið fram í: Á að lækka þau?)

Þá er spurningin: Úr því að svona mikill samhljómur er í þjóðfélaginu um að taka eigi á í ríkisfjármálunum, hvað getum við þá gert? Er það rétt, virðulegur forseti, höfum við farið óvarlega á undanförnum árum?

Ég get sagt fyrir mig, virðulegi forseti, að ýmislegt í þessari gagnrýni kann að vera rétt. Það er hugsanlegt að svo sé. Við höfum kannski farið óvarlega. En hvar höfum við þá farið óvarlega? Hvað hefur verið að hækka hjá ríkinu? Á undanförnum árum höfum við verið að stórefla og auka það velferðarkerfi sem hér er við lýði og erum að því enn. Ef við skoðum hækkanirnar sem eru í fjárlagafrumvarpinu núna þá eru þær mestar í framlögum til lífeyristrygginga og barnabóta. Þar eru þær mestar. Ef við lítum á lengra tímabil, hvort sem það eru fimm, tíu eða fimmtán ár yfir þetta stjórnartímabil, þá er alveg ljóst að mestu hækkanirnar sem orðið hafa eru í málefnum hverra? Hverjir skyldu það nú vera, virðulegi forseti? Það eru nú ekki allir sem trúa því, en það er í málefnum fatlaðra. Þar hefur þessi ríkisstjórn hækkað mest. Þar hafa hækkanirnar verið langsamlega mestar, sama hvort við tökum fimm, tíu eða fimmtán ár. Það kann að vera, og ég ætla ekki að útiloka það, að menn hafi farið óvarlega fram í að búa til þetta velferðarþjóðfélag. Við áttum kannski að fara vægar í sakirnar. Við þurfum að ræða það við alla þá sem gagnrýna stöðu ríkisfjármálanna í dag. Við þurfum að gera það. En fyrst og síðast er ég viss um að ef við höfum farið óvarlega þá höfum við farið óvarlega í launamálum. Við höfum verið að hækka raunlaun á Íslandi verulega mikið og verulega miklu meira en allar okkar samkeppnisþjóðir og allar okkar nágrannaþjóðir.

Þá spyr ég, virðulegi forseti: Var einhver á móti? Var einhver sem varaði við? Var einhver með efasemdir um að við ættum að hækka launin? Nei, það var enginn. Allir voru sammála um það eða það minnir mig. Verið getur að kannski einn maður hafi eitthvað verið að röfla um þetta, að það væri kannski of mikið og ekki ætti að gera þetta svona. En það hlustaði hvort sem er enginn á hann og enginn vildi taka mark á þeim viðvörunum þannig að við skulum bara gleyma því. Það stóðu allir að þessu. Við skulum vera alveg viss um það. (Gripið fram í: Hver var það sem röflaði?)

Svo skulum við fara yfir það hvar við erum komin í þessum launagreiðslum. Þessar símalandi greiningardeildir bankanna sem núna senda okkur kveðju guðs og sína bæði kvölds og morgna tala ekki um það sem þær ættu nú fyrst og fremst að tala um. Þróunin hefur verið sú, þ.e. ef við tökum þáttatekjurnar — það skiptir öllu máli að fjalla um þær — ef við tökum þáttatekjurnar þá hafa laun á Íslandi verið í kringum 70% af þáttatekjunum núna um nokkurra ára skeið, 70%. Engin önnur þjóð í Evrópu er með þetta launahlutfall. Launahlutfallið í þáttatekjunum er í kringum 60% hjá Evrópuþjóðunum. Sú sem er næst okkur, eina þjóðin sem kemst nálægt okkur, eru Svíar með töluna 64, 65.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að ekkert þjóðfélag getur staðið með þetta launahlutfall. Það er orðið allt of hátt vegna þess að hið óhugnanlega og það sem við eigum að vera hrædd við — menn eru nú að vara hér mikið við og eru með mikið viðvörunartal — er það að á móti hefur hreinn hagnaður þjóðfélagsins, hreinn hagnaður í atvinnurekstrinum, verið að minnka. Hann er kominn núna niður í 10–11% sem er mjög hættulegt. Þetta heitir að borða útsæðið. Það er kannski ekki von að almenningur átti sig á því miðað við þær gríðarlegu tölur sem er verið að segja frá af hagnaði fyrirtækja. En sá hagnaður getur ekki stafað af öðru en velgengni þeirra í útlöndum eða þá eignatilfærslu. Þeir eru hækka hlutabréfin hver í öðrum og búa þannig til nýjan hagnað. Þetta er hið hættulega sem við þurfum að horfast í augu við.

Ef við lítum nú á þróun ríkisútgjaldanna á umliðnum árum og spyrjum: Var einhver á móti? Þá er svarið, virðulegi forseti: Nei, það var enginn á móti. Hins vegar vildu mjög margir bæta enn meira í. Og nú koma menn í stórum hópum, nú kemur hagfræðistofnun eftir hagfræðistofnun, Seðlabankinn og hinir bankarnir og allir þessir og segja: Nú þarf að skera niður í ríkisútgjöldunum.

Það er ágætt ef um það næst samstaða í þinginu að skera niður ríkisútgjöld. Ekki ætla ég að hafa á móti því. En ég bendi á, virðulegi forseti, að í sögulegu samhengi hefur það aldrei tekist. Í nútímasögu Íslands er eitt dæmi til um að tekist hafi að skera niður í ríkisútgjöldum á einum þætti og það var með mjög víðtækri þjóðfélagssátt. Það gerðist árið 1990 þegar samstaða var um að fella út á nokkrum árum útflutningsuppbætur á dilkakjöt. Það er eina dæmið. Það er bara eitt dæmi til. Að vísu reyna menn á hverju ári að stemma aðeins stigu við hækkunum með því að skera niður 100 milljónir hér og 100 milljónir þar. Það er hið eðlilega starf. En niðurskurður á ríkisútgjöldum hefur ekki átt sér stað á Íslandi og það sem meira er, virðulegi forseti, hann hefur ekki átt sér stað í Evrópu. Evrópuþjóðirnar hafa ekki ráðið við þetta.

Virðulegur forseti. Ég tel því að það liggi alveg ljóst fyrir að ef mönnum er alvara í því að vilja stemma stigu við hækkun ríkisútgjalda þá sé kenningin bara ein, að það sé algild kenning um það. Það er ekki hægt að standa að því að lækka ríkisútgjöld eða stemma stigu við hækkun þeirra nema með því að vera á móti áður en það er samþykkt. Þegar búið er að samþykkja það, gera t.d. samning um laun, þá stendur það. Ef menn ætla að vera ábyrgir þá eru þeir á móti því áður en samið er og berjast gegn því. Menn skera ekkert niður íslenska velferðarþjónustu. Hér er ekkert hægt, eins og þessir kappar eru að skora á okkur að gera — menn skera ekkert niður framlög til skóla eða rannsókna eða velferðarmála eða sjúkrahúsa. Þetta er bara vitleysa, virðulegi forseti. Þetta er bara bull sem verið er að segja. Þau geta kannski verið vel menntuð og vel meinandi en þau vita ekkert um hvað verið er að fjalla. Þetta er óframkvæmanlegt og verður ekki gert, hvorki á Íslandi né í öðrum Evrópulöndum.

Vandamál Evrópuþjóðanna sem hafa misst efnahagsmálin út úr höndunum á sér — en það hafa þau nærri því öll gert með undantekningunum Noregi, Íslandi og Sviss — er þetta: Menn eru að hækka ríkisútgjöldin, auka velferðina, hækka, stækka og efla og auka allt sem þeir vilja þegar vel gengur. Svo þegar slær í bakseglin þá er ekkert pólitískt afl til til þess að skera þetta niður. Þá stendur eftir kostnaðurinn. Þetta er ferlið. Við sjáum þetta í sögunni alls staðar. Við skulum því horfast í augu við þetta. Við erum ekkert öðruvísi en aðrir. Við munum ekki standa hér fyrir neinum róttækum aðgerðum þó að menn berji sér á brjóst. Ég á líka eftir að sjá að stjórnarandstaðan, hversu mikið sem við munum krefja hana um það, komi með nokkra einustu tillögu þar að lútandi. Ég veit það alveg fyrir fram, enda er ósanngjarnt að vera að kalla eftir því. Það er bara svona leikaraskapur. Ég ætla ekki að gera það heldur.

Við stöndum frammi fyrir þessu, virðulegur forseti. Ríkisfjármál Íslands eru einhver þau sterkustu í Evrópu og við skulum þakka fyrir það hversu lánlega við höfum komist í gegnum þetta. Ég þakka það nú sérstaklega þeim góðu samningum sem við rötuðumst til að gera á sínum tíma til að byggja upp lífeyrissjóðakerfi Íslendinga (Gripið fram í: Og þjóðarsáttinni.) því að annars hefðum við varla staðið svona vel að vígi eins og við gerum í dag. Þess vegna þurfum við að horfast í augu við það hvað er fram undan núna þegar allir eru sammála um að hætta sé á ferðum. Hvaða hætta er þetta? (Gripið fram í: ... ríkisstjórn.)

Ef við lítum á spána, á forsendurnar sem fjárlagafrumvarpið byggist á, þá er athyglisvert að gert er ráð fyrir því að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir í ár og fram eftir næsta ári, þegar þeir fari að lækka. Einnig er gert ráð fyrir því að meðalgengi íslensku krónunnar, sem núna er í 103,7 eða 103,8 verði 114 á næsta ári. Það er líka gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn á næsta ári verði 120 milljarðar kr. (Gripið fram í: Það verður miklu meira.) Spurningin, virðulegi forseti, er hverju menn vilja trúa í þessu. Þessi spá er eflaust ekki verri en hver önnur. Ég hef hins vegar haldið því fram að þetta sé ákaflega ósennilegt. Það fær enginn mig til að trúa að Íslendingar geti búið til viðskiptahalla á næsta ári, ofan á allt annað, upp á 120 milljarða kr. Það stenst ekki. Ég trúi því ekki.

Ég veit, virðulegi forseti, að útflutningsatvinnugreinar Íslands geta ekki lifað við gengið. Ég er viss um það. Ég hélt ræðu um það 3. desember á síðasta ári og er tilbúinn til að flytja þá ræðu aftur. (SJS: Þú verður að segja Halldóri Ásgrímssyni þetta.) Allir sem lyst hafa geta lesið þá ræðu. Ég ítreka, virðulegur forseti, að ég tel að allt sem hefur gerst síðan sanni mál mitt. Hættan fyrir okkur er sú að við sem þjóð höfum hækkað laun okkar, raunlaun Íslendinga — við allir og við berum öll ábyrgð á því — meira en vöxtur efnahagslífsins hefur leyft. Þetta höfum við öll gert sameiginlega og berum sameiginlega ábyrgð á því. Þetta, virðulegi forseti, er ekki hægt. Engri þjóð hefur tekist þetta. Ef þetta væri hægt, hvers vegna viðgengst það sem virðulegur þingmaður sagði frá í fyrradag, að það væru 800 milljónir manna vannærðar í heiminum? Það er rétt hjá honum. Ef hægt væri að hækka raunlaunin í heiminum þá væri enginn svangur. Ef þetta væri hægt þá væri líka sagan af Münchhausen baróni sönn, en hvert mannsbarn veit að sá barón var lygalaupur. Hann gat ekki dregið sig upp á hárinu. (SJS: Það er góð saga.) Meira að segja litlu börnin sem lesa söguna vita að hann var lygalaupur. Það sér það hver í hendi sér.

Við skulum horfast í augu við að við höfum bætt lífskjörin á Íslandi meira en gerst hefur í nokkru öðru landi. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hlutfall af þáttatekjunum sem ég nefndi áðan, 70% laun, fær ekki staðist nema í örskamma stund nema vaxtakjörin séu því betri. Svo hefur verið í nokkur ár en fær ekki staðist og því verður að linna. Það bíður að mínum dóm, virðulegi forseti, hvers einasta stjórnmálamanns að þora að segja, horfast í augu við þjóðina og segja að fram undan eigum við helst von á að lífskjörin hljóti aðeins að rýrna. Það verður kjaraskerðing á Íslandi, kannski ekki mikil, vonandi ekki nema svona 1–2%. Kannski sleppum við þar, kannski verður hún meiri. En það ber að segja það vegna þess að menn eiga að segja satt og rétt frá.

Núna stöndum við frammi fyrir þessu. Útflutningsframleiðslugreinar Íslands geta ekki lifað við þá stöðu sem við erum í og engum er greiði gerður með því að þjóðin haldi áfram að safna tugmilljarða skuldum í útlöndum. Menn geta kennt ríkisstjórninni um þetta ef þeir vilja. Það er þó erfitt að finna það út vegna þess að ríkisfjármálin eru mjög sterk. Þessi þjóð hefur sjálf staðið að eyðslunni, allir hafa tekið þátt í henni, við finnum enga sem ekki eru sekir. Menn taka lán og aftur lán og auka neyslu sína. Það er komið að því að við verðum að stoppa, því verður að linna. Við getum ekki haldið genginu svona.

Hvað eigum við þá að gera vegna þeirrar hættu sem upp er komin? Það er ljóst, virðulegi forseti, að við höfum gert ein mistök sem eru greinileg. Það var þegar við hækkuðum hlutfall húsnæðislána. Við eigum þegar í stað, helst í dag, að færa það niður aftur í 80%, helst 75%. Við verðum að gera það. Þetta var augljós vitleysa. Við verðum líka, miðað við vinnumarkaðinn eins og hann er, að galopna landið fyrir þjóðum sem nýgengnar eru í Evrópubandalagið, eins og Pólverjum, galopna það þegar í stað.

Í þriðja lagi verðum við — menn hafa ekki viljað hlusta en nú eru þeir í þeirri stöðu að verða að hlusta — að fara í að skoða verðtryggingar. Það er brýnasta verkefnið, virðulegi forseti, hjá okkur í dag. Við getum hálsbrotnað á þeim núna. Við verðum að taka þær út. Við erum með tvenns konar krónu, þ.e. íslenska krónan og verðtryggða krónan, en á verðtryggðu krónuna bíta vextirnir ekki. Það getur vel verið að það séu góðir menn og gegnir í Seðlabankanum, sem þykjast standa vaktina sína, en þeir geta hækkað stýrivexti í sífellu. En þeir bíta ekki, eins og vextir bíta hjá öðrum þjóðum. Það er brýnt að við breytum þessu.