132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætt innlegg hjá hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni.

Ég er á því að niðurskurður upp á 6 milljarða á þremur árum í vegamálum skipti ekki sköpum í efnahagslífi þjóðarinnar. Hins vegar er það mjög mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma sendi út skilaboð. Ég hef ekki orðið var við að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi verið að hæla þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa komið hér upp, hv. þingmenn, hver á fætur öðrum og gagnrýnt niðurskurð í vegamálum. Svo koma hinir sömu hv. þingmenn hér upp og kalla á aðhald og ekkert smáræðis aðhald, það skal vera eitthvað sem munar um.

En ég vil benda hv. þingmanni á að það eru ekki einungis 2 milljarðar sem ríkisstjórnin ætlar að fresta í vegamálum á næsta ári heldur 3 að auki í ýmsum öðrum stofnframkvæmdum og ég hef trú á því að þau skilaboð sem stjórnvöld eru að senda út bæði til sveitarfélaga og annarra aðila á markaðnum skipti máli. En hv. þingmaður Jón Gunnarsson verður náttúrlega að vera samkvæmur sjálfum sér þegar talar um samgöngumál í Suðurkjördæmi eða um fjárlögin. Við verðum að sýna aðhald í ríkisrekstri, við verðum að sýna ábyrgð, en eins og ég sagði áðan finnst mér oft á tíðum að Samfylkingin tali með nokkru ábyrgðarleysi þegar að efnahagsmálum kemur.