132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:02]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að allir hefðu það betra en fyrir tíu árum. Víst er það svo í vestrænum samfélögum, sem betur fer, að kaupmáttur vex eftir því sem tímarnir líða fram og öll höfum við það sýnu betra þennan áratuginn en hinn síðasta, en það sem skiptir máli er tekjuskiptingin í samfélaginu.

Ef hæstv. fjármálaráðherra kynnir sér kjör hinna ýmsu hópa í samfélaginu held ég að hann verði ekki eins glaðbeittur í yfirlýsingum sínum vegna þess að til að mynda um ellilífeyrisþega er það að segja að þó að bætur þeirra hafi hækkað nokkuð umfram verðlag hafa þær langt í frá hækkað í samræmi við laun. Á móti þessum hækkunum hefur það vegið að haldið hefur verið aftur af persónuafslættinum þannig að nú greiðir ellilífeyrisþeginn ekki 3% í skatt eins og hann áður gerði heldur 14%. Þar með er hækkun bóta umfram verðlag í rauninni tekin aftur með hinni hendinni. Því er ómótmælt að skattaaðgerðir ríkisstjórnarinnar gera það að verkum að hálaunamenn, eins og til að mynda við sem störfum í þessum sal, fá allt að heilum mánaðarlaunum í lægri skattbyrði á ári hverju meðan þessir ellilífeyrisþegar greiða heilum mánaðarlaunum meira.

Það er óhjákvæmilegt að spyrja nýjan hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé stefna hans að halda áfram að beita skattkerfinu til þess að auka mismununina og misskiptinguna í samfélaginu með skattaaðgerðum ofan á þá þróun sem við sjáum í launum og almennt á markaðnum til aukinnar misskiptingar í launum. Er það stefna hæstv. fjármálaráðherra að halda þessari gliðnun íslensks samfélags í ólíka tekjuhópa, ríka og fátæka, áfram með sérstökum skattaaðgerðum?