132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:40]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hv. þingmaður svaraði mér ekki um gengismálin. Það liggur alveg fyrir hversu stór hluti af viðskiptahallanum er vegna stóriðjunnar.

Hann vill ekki horfast í augu við það að Ísland er með langhæstu vexti í Vestur-Evrópu og þó að við leituðum alls staðar nema í Afríku, við getum fundið það í Kenía eða einhvers staðar þar. Við erum með svo háa vexti að það þrýstir hér inn fjármagni, við erum að dæla hér inn peningum, við erum með ranga peningastefnu sem veldur atvinnuvegunum mjög miklum erfiðleikum, svo miklum erfiðleikum að ekki verður við það lifað.

Hann talar um 500 störf í fiskiðnaði sem hafi fallið á tiltölulega skömmum tíma. Ég fullyrði að þau munu margfaldast á næstu missirum ef við snúum ekki af þessari braut. Vill hann ekki taka undir það sem ég hef verið að segja hér að það er óumflýjanlegt að við bætum stöðu samkeppnisiðnaðarins á Íslandi, framleiðsluna í heild? Við verðum að gera það því hver er kaupmáttur atvinnulauss fólks? Hann er enginn.

Það verður ekki frá því vikist, hvernig sem við gerum það, að segja þetta opinberlega og þannig stuðlum við að betri stöðu í þjóðfélaginu. Auðvitað kostar þetta kjararýrnun en það vilja þeir ekki segja því þessir hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni telja það skyldu sína að segja alltaf það sem þeir halda að aðrir vilji heyra. Þeir vilja ekki koma hér og segja það sem er óþægilegt. En böggull fylgir skammrifi, það er nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir. Það getur komið sú staða að við þurfum að stoppa hér við, kannski hálft ár, kannski eitt ár, og segja við fólk: Nú getum við ekki bætt kjör ykkar, nú verður að vera bið. Síðan getum við haldið áfram á fullri ferð með þetta mjög svo vel smurða og vel skipulagða hagkerfi. Við verðum að segja mönnum þetta opinskátt. Ef stjórnarandstaðan telur sig vera ábyrga, hvers vegna í ósköpunum vill hún ekki taka undir það, (Forseti hringir.) vitandi að framleiðslan getur ekki þolað þetta?