132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:09]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Í þjóðfélagsumræðunni hefur lengi verið rætt um nauðsyn þess að almenningi gefist kostur á að taka með virkari hætti þátt í stefnumótun um einstök mál en verið hefur. Mikið er rætt um þörfina á að bera mál milliliðalaust undir atkvæði þjóðarinnar í auknum mæli. Sameiningarkosningar sveitarfélaga sl. laugardag voru í anda þessara sjónarmiða.

Íbúar sveitarfélaganna hafa nú kveðið upp sinn dóm. Það er ekki mikið meira um það að segja. Þannig er lýðræðið. Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni með þá miklu og almennu umræðu um málefni sveitarfélaganna sem fram hefur farið vegna þessa átaks og er sannfærður um að sú vinna öll mun nýtast sveitarfélögunum í landinu í framhaldinu við að styrkja þetta mikilvæga stjórnsýslustig.

Þegar átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins hófst haustið 2003 voru sveitarfélögin í landinu 103. Að fengnum niðurstöðum sameiningarkosninga sl. laugardag, ásamt niðurstöðum þeirra atkvæðagreiðslna sem fram fóru 20. nóvember 2004 og 23. apríl 2005, munu sveitarfélögin verða 89 talsins að loknum sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Síðastliðinn laugardag var ein sameiningartillaga samþykkt en 15 var hafnað. Íbúar 20 sveitarfélaga samþykktu sameiningu en íbúar 41 höfnuðu henni. Um 32% kjósenda tóku þátt í kosningunni. Í raun eru þetta hliðstæðar niðurstöður og í því sameiningarátaki sem gert var árið 1993. Nú eins og þá var ein tillaga samþykkt óbreytt. Þá voru sameiningartillögur samþykktar í 64 sveitarfélögum af 185 sem er nálægt þriðjungi líkt og nú. Endurtekningarkosningar í fimm sveitarfélögum á næstu vikum gætu leitt til enn frekari sameiningar.

Hæstv. forseti. Sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum höfðu frumkvæði að þessu átaki. Félagsmálaráðuneytinu ber samkvæmt sveitarstjórnarlögum að stuðla að fækkun og stækkun sveitarfélaga í samráði við sveitarstjórnarmenn. Það kom því að sjálfsögðu aldrei annað til greina en að taka þátt í þessu verkefni með sveitarstjórnarmönnum.

Þverpólitísk sameiningarnefnd sem í sitja fulltrúar Alþingis, sveitarfélaga og ríkis setti fram ákveðnar tillögur eftir víðtækt samráð við sveitarstjórnarmenn. Hlutverk ráðuneytisins var fyrst og fremst að vera samræmingaraðili milli sveitarstjórna, ríkis og Alþingis. Ég fullyrði að ráðuneytið sinnti þessum skyldum sínum, sömuleiðis alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og aðrir þeir sem að verkefninu komu. Undir það hafa forsvarsmenn Sambands sveitarfélaga tekið. Það lá hins vegar ávallt fyrir, hæstv. forseti, að sú aðferð sem við Íslendingar höfum beitt við að vinna að eflingu sveitarstjórnarstigsins er lýðræðislegri en í öðrum löndum og í henni felst að íbúar hvers sveitarfélags hafa í raun og veru neitunarvald um hvort til sameiningar kemur. Því valdi hefur meiri hluti þeirra nú beitt og þeirri niðurstöðu verður að sjálfsögðu að una.