132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka undir það að ríkisstjórnin gleymi öldruðum. Við höfum verið í sérstöku átaki undanfarin ár við að byggja upp hjúkrunarheimili þó að þurfi að gera betur á því sviði, auka heimahjúkrun og heimaþjónustu. Hér verður utandagskrárumræða á morgun sem hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, hefur beðið um og mun ég þá gera grein fyrir þessum málum.

En varðandi símapeningana þá munu þeir að sjálfsögðu gera það að verkum að rými skapast fyrir önnur verkefni og við getum ekki sinnt öllum verkefnum með þeim peningum. Hluta af þeim var varið til að borga niður skuldir og þegar við borgum niður skuldir skapast rými fyrir ný verkefni. Ég vona svo sannarlega að aldraðir njóti góðs af því. Ég vil einnig taka fram að það stóra verkefni sem ég gerði sérstaklega að umræðuefni og markar tímamót að mínu mati, að auðvitað njóta aldraðir þess eins og aðrir landsmenn vegna þess að aldraðir þurfa eðli málsins samkvæmt mjög mikið á spítalaþjónustu að halda. Þetta er verkefni í þágu allrar þjóðarinnar, þess vegna er það svo mikilvægt og ég vildi gera það sérstaklega að umtalsefni í þessari umræðu.