132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemdir við þann málflutning að þær framkvæmdir sem farið er út í við sölu Símans beri engan arð. Hv. þingmaður heldur því hér fram að við munum missa arðinn af Símanum. Jú, það er rétt, en það fjármagn sem við losum á móti mun að sjálfsögðu bera gífurlegan arð. Í fyrsta lagi munum við borga upp verulegar skuldir hjá ríkinu og losna þar með við vaxtagjöld. Það liggur alveg ljóst fyrir að þær miklu samgönguframkvæmdir sem farið verður út í munu bera mikinn arð og þær framkvæmdir sem farið verður í í heilbrigðismálum munu bera mikinn arð og ég er viss um að þær munu m.a. bjarga mörgum mannslífum.

Mér finnst alveg fráleitt þegar hv. þingmaður lítur fram hjá því og heldur því hér fram að við hefðum getað farið í alla þessa hluti án þess að selja ríkiseignir. Ég skil ekki þessa hugmyndafræði, hv. þingmaður. Og mér finnst það beinlínis vera rangtúlkun sem Vinstri grænir eru með að það komi málinu ekkert við að selja Símann, við hefðum bara getað átt hann áfram og farið út í alla þessa hluti.

Ég skil hins vegar þann hugmyndalega ágreining sem er milli Vinstri grænna annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar um það sem Vinstri grænir halda fram að ríkið eigi að vera í samkeppnisrekstri, það eigi að vera í fjármálaþjónustu, það eigi að vera í fjarskiptaþjónustu jafnvel þótt þar sé komin mikil samkeppni og þar séu einkaaðilar. Það er út af fyrir sig einfaldur hugmyndalegur ágreiningur en ég tel það fjarstæðukennt að ríkið sé almennt í samkeppnisrekstri.