132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:30]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við heyrum hvern þingmanninn á fætur öðrum lýsa því yfir hve vel hafi tekist til, jafnvel ákaflega vel eða mjög vel, með einkavæðingu Símans. Á ræðumönnum er helst að heyra að aðeins sé um einn mælikvarða að ræða á því hvort vel hafi tekist til eða ekki, þ.e. hve mikið af peningum hafi komið í ríkiskassann fyrir söluna og hve marga aura hæstv. ríkisstjórn fái til þess að deila út í pökkum til kjósenda. Sjálfsagt veitir ekki af að gleðja. En þetta er þó aðeins einn mælikvarði og að mínu áliti alls ekki sá mikilvægasti. Hið mikilvægasta er að skoða hvort íbúum landsins verði þjónað jafn vel eftir einkavæðinguna og áður. Ég tel ástæðu til að setja spurningarmerki við það.

Við sjáum að nú þegar hefur verið dregið saman í þjónustu Símans úti á landi. Við sjáum dæmin á Blönduósi og Siglufirði. Aðeins tíminn mun leiða í ljós hvort notendum að þjónustu Símans á þessu svæði verður þjónað jafn vel eftir sem áður.

Hv. þingmaður minntist líka áðan á fjarskiptasjóð sem á að standa undir framkvæmdum sem teljast óhagkvæmar fyrir fyrirtækið eftir að búið er að einkavæða vegna fámennis og strjálbýlis. Í dag eiga sér væntanlega ekki stað síðustu tækniframfarir í símamálum. Ætli það komi ekki að því í framtíðinni að fámenn og strjálbýl svæði verði látin sitja á hakanum og verði jafnvel algjörlega afskipt vegna þess að það borgar sig ekki fjárhagslega fyrir einkafyrirtæki að sinna þeim. Ég óttast það, (Forseti hringir.) frú forseti, og held að enginn (Forseti hringir.) geti sagt til um það í dag hvort þessi sala hafi heppnast vel eða ekki.

(Forseti (JBjart): Þingmaður hefur kost á að halda máli sínu áfram í öðru andsvari.)