132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nokkur skaði að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki vera hér til að ræða þessi mál við Alþingi. Það færi betur á því að alþingismenn gætu átt orðastað við hæstv. ráðherra hér heldur en þurfa að lesa um skoðanir hans á heimasíðu sem hæstv. ráðherra þar fyrir utan kannast ekki við að því er virðist og telur sig ekki bera ábyrgð á, a.m.k. ekki í gervi dómsmálaráðherra. Það er auðvitað sérkennilegt ef sá siður er að þróast í landi hér að menn geti sagt alla skapaða hluti á heimasíðum sínum sem þeir þurfa svo ekki að standa við almennt opinberlega í eigin líki.

En ég ætla þá fyrst og fremst að vekja athygli á því að hæstv. dómsmálaráðherra þarf að svara á Alþingi fyrir og bera ábyrgð á afglöpum undirmanna sinna sem þau væru hans eigin. Það er nefnilega þannig að áfellisdómur Hæstaréttar yfir lögreglu og ákæruvaldi er um leið áfellisdómur yfir dómsmálaráðherra sem ber hina pólitísku ábyrgð á þessum málaflokki. Þess vegna er það auðvitað ekki þannig að hæstv. ráðherra geti skotið sér undan ábyrgð með því að blaðra eitthvað á heimasíðunni eða flýja til útlanda.

Það sem er mjög alvarlegt í þessu máli, frú forseti, er og það að hér er eitt stærsta og dýrasta embætti þjóðarinnar, ríkislögreglustjóraembættið, og ákæruvaldið sem þar heyrir undir auðvitað sekt um algerlega ótæk vinnubrögð. Verður þó ekki borið við fjárskorti eða umhyggjuskorti af hálfu fjárveitingavaldsins undanfarin ár því þetta embætti hefur tútnað út meira en nokkur önnur og það hefur tekið sér langan tíma, satt best að segja ámælisvert langan tíma í þessa rannsókn, væntanlega viðamikil. En það að útkoman skuli vera svona hörmuleg, samanber áfellisdóm í reifun Hæstaréttar, er auðvitað ekki ásættanlegt. Fyrir þetta verður hæstv. dómsmálaráðherra að svara.

(Forseti (SP): Forseti vill láta þess getið að hæstv. dómsmálaráðherra er með fjarvistarleyfi í dag vegna skyldustarfa erlendis.)