132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:03]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórnar verður ekki síst minnst fyrir það hvernig hún jók á misskiptinguna í þjóðfélaginu og skildi aldraða og öryrkja eftir í góðærinu. Á valdaferli þessarar ríkisstjórnar hafa tekjur ríkissjóðs aukist um rúmlega 100 milljarða umfram hækkun á vísitölu neysluverðs. Samt hafa stjórnarflokkarnir skorið niður lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja á þessum sama tíma um nærri 5 milljarða kr. Lífeyrisgreiðslur til þeirra væru um 150 þús. kr. hærri á ári ef þær hefðu fengið að halda raungildi sínu eins og þær voru áður en stjórnarflokkarnir tóku við völdum. Þessum fjármunum munum við í Samfylkingunni skila til baka til aldraðra og öryrkja þegar við komumst til valda. Það er líka ömurlegt að sjá hvernig stjórnarflokkarnir vakna upp með reglulegu millibili bara rétt fyrir kosningar og muna þá eftir öldruðum og öryrkjum.

Ég minni á að þrátt fyrir samkomulag sem gert var við aldraða á árinu 2002 hefur ekki verið staðið við loforð um fjölgun hjúkrunarrýma eða sveigjanleg starfslok en 500 aldraðir eru nú á biðlista eftir hjúkrunarrýmum. Kjarabæturnar í auknum lífeyri sem aldraðir fengu fyrir kosningar 2003 hafa líka verið teknar aftur í auknum lyfja- og lækniskostnaði, stórlega skertum skattleysismörkum og aukinni skattbyrði lífeyrisþega sem margfaldast hefur í tíð ríkisstjórnarinnar. Í fjárlögum fyrir næsta ár er raunlækkun á grunnlífeyri lífeyrisþega og skerðing á bifreiðastyrk um 720 millj. kr. sem bitnar harkalega á öldruðum og öryrkjum og stór hluti lífeyrisþega býr ekki við mannsæmandi aðstæður í þjóðfélaginu.

Lífeyrisþegar hafa bara eitt svar við þessum sviknu loforðum og árásum stjórnarflokkanna á kjör þeirra sem hafa verið margvísleg og mörg í gegnum setu þessara stjórnarflokka og það er að refsa þeim rækilega í næstu kosningum.