132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:52]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir aðfinnslur mínar í garð þeirra liða sem hér eru ár eftir ár og sumir hverjir sjö ár samfleytt á fjáraukalögum. Ég vona að nýr hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að hlusta þegar formaður fjárlaganefndar sagði að auka þyrfti aðhaldið, eftirlitið og agann í ríkisfjármálunum bæði hjá ráðuneytunum og stofnunum því að þar fer hann sannarlega rétt með.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. formann fjárlaganefndar að því hvernig hann meti aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem hér er sjötta árið, af sjö undanförnum árum, á fjáraukalögum og þó ekki síður þær fjárveitingar sem hér eru lagðar til til sendiráða landsins erlendis. Það eru 274 milljónir í aukafjárveitingu eftir að við höfum stóraukið framlög til þessarar starfsemi ár frá ári og enn er óuppgerður gengishagnaður sendiráðanna vegna hinar sterku stöðu krónunnar í ár. Varaformaður fjárlaganefndar hefur sagt opinberlega að taka þurfi sendiráðin í gjörgæslu og ég vil lýsa þeirri skoðun að fjárlaganefnd þarf að taka þetta til sérstakrar athugunar. Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hann telji þetta ekki gefa fullt tilefni til þess að fjárlaganefnd hefji rannsókn á því hvernig á því standi að þrátt fyrir stórauknar fjárveitingar á undanförnum árum til sendiráðanna sé sú lausung í rekstri þeirra að um sé að ræða hundruð milljóna króna framúrkeyrslu því að auk þessara 274 milljóna hygg ég að enn sé nokkuð óuppgert.