132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulega frú forseti. Ég vissi að ég kæmi þarna einmitt við einkavæðingarhjarta hv. þingmanns því að hann getur ekki hugsað sér að ríkið eða samfélagið eigi neitt sem getur verið því til stoðar og styrktar.

Ég vil samt benda þingmanninum á að markaðsvæðing raforkukerfisins til þessa hefur ekki verið að leiða neina farsæld yfir þjóðina. Við höfum fengið hér hvern fulltrúann á fætur öðrum frá sveitarfélögunum, frá Súðavík, Austurlandi og víðar að þar sem þeir benda á stórhækkað raforkuverð í kjölfar markaðsvæðingarinnar sem þegar er hafin. Kannski er þetta tekjuöflunin sem hv. þingmaður horfir til. Búið er að selja bankana og það fleytti ríkissjóði. Nú er verið að selja Landssímann og það fleytir ríkissjóði. Samtímis eru tekjustofnar ríkissjóðs veiktir með því að létta á tekjuskattinum og nú skal selja Landsvirkjun til þess að (Forseti hringir.) halda eyðslunni áfram. Ég er á móti þessu, frú forseti.