132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:24]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalega umræðu. Það voru nokkur atriði sem ég náði ekki að svara, sérstaklega hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, en það varðar fund kvenkyns menningarráðherra. Hann kom upp í upphafi ársins eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt og því ekkert óeðlilegt við að hann komi fram í fjáraukalögum.

Hv. þm. Jón Gunnarsson fjallaði líka talsvert um afskriftir á skattkröfum. Hann sagðist reyndar hafa spurst fyrir um þetta áður enda svaraði hann eiginlega spurningum sínum sjálfur. En það er einmitt á þeim forsendum sem hann nefndi í ræðu sinni sem verið er að skoða þessi mál upp á nýtt og hækka þá afskriftirnar til samræmis við það sem raunveruleikinn hefur sýnst vera.

Hann nefndi síðan yfirdýralæknisembættið til sögunnar. Það snýst um þá erfiðleika sem ýmsir sláturleyfishafar hafa átt í á undanförnum árum, að innheimtan hefur ekki gengið eftir og sláturleyfishafar hafa verið að fara á hausinn og því hefur staða embættisins orðið slakari en ella hefði verið og úr því þurfti að bæta.

Hvað varðar Hafrannsóknastofnun, hrefnuna og loðnuna, eru þessi hvalamál okkar öll ansi erfið viðfangs eins og hv. þingmenn þekkja. Vísindaveiðarnar fara fram í framhaldi af þingsályktun frá því veturinn 1998–1999. Við höfum reynt að fara varlega í þetta, reynt að ögra ekki umhverfi okkar og því rétt að taka ákvarðanirnar svona eftir því hvernig á hefur staðið en samt innan þess vísindalega ramma sem nauðsynlegt er. Þess vegna hafa ákvarðanir ekki verið teknar fyrr en upphaf veiðitímabilsins hefur nálgast og þar af leiðandi hefur ekki verið talið rétt, þar sem ákvarðanir hafa ekki legið fyrir, að áætla fyrir því í fjárlagafrumvarpinu eins og að ákvarðanirnar hefðu verið teknar þegar sú var ekki raunin.

Loðnurannsóknirnar eru hins vegar svolítið öðruvísi. Gríðarlega miklar breytingar hafa verið á göngumynstri loðnunnar undanfarin ár sem hefur kallað á auknar rannsóknir. Ekki lá fyrir þegar áætlanir voru gerðar hversu nauðsynlegt væri að fara í miklar rannsóknir því að veiðitímabilið sem ákvarðanir eru teknar um og rannsóknirnar eru grundvöllur að, eru raunverulega á tveimur fjárlagaárum. En það hefur verið talið rétt að fara í þessar rannsóknir og ég held að það hafi skilað sér í því að við höfum fengið þokkalegar loðnuvertíðir undanfarin ár og staðan hefði jafnvel verið sú að þær hefðu ekki orðið ef ekki hefði verið lagt í þessar auknu rannsóknir, en það var heldur ekki fyrirséð.

Síðan nefndi hv. þingmaður Þróunarsjóðinn. Ég fer nú með það eftir minni, ég held að það eigi að vera búið eða um það bil að ganga frá uppgjöri en endanleg skil hafa held ég ekki farið fram þannig að sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki fengið til ráðstöfunar þá fjármuni sem áttu að renna í verkefnissjóðinn svokallaða en ekki beint til Hafrannsóknastofnunar samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á lögum þar að lútandi á síðasta þingi. Þeir fjármunir hefðu þar af leiðandi ekki verið til afnota í þeim tilgangi sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega varðandi loðnurannsóknirnar.

Varðandi fjáraukalagafrumvarpið nefndi ég það í upphafi að að teknu tilliti til óreglulegra liða væru umframfjárveitingar sem lagðar eru til 1,4% af heildarfjármagninu sem til ráðstöfunar væri. Ég sagði í upphafsræðu minni eða í andsvari í framhaldi af henni að ég teldi að þetta væri með því minnsta sem sést hefði undanfarin ár. Ég hef látið kanna þetta átta ár aftur í tímann eða til ársins 1998 og á sömu forsendum er þetta langsamlega minnsta aukningin sem lögð er til og nálgast að vera helmingi minna en það sem er næstmest.