132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu.

92. mál
[15:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil rifja það upp að það var ekki síst að frumkvæði þingsins að hér var fyrir nokkrum árum samþykkt tillaga og frumvarp um embætti sóttvarnalæknis og það hefur komið í ljós að það var ákaflega farsæl ákvörðun.

Mig langaði til að draga eftirfarandi fram í þessari umræðu: Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra og íslensk stjórnvöld hafi staðið sig mjög vel í undirbúningi fyrir þessa aðvífandi vá. En það er merkilegt að sjá hvernig mismunandi þjóðfélagsgerðir leiða til mismunandi viðbragða. Við sjáum að norræna módelið, sem einkennir samfélög sem jafnaðarmenn hafa byggt upp á Norðurlöndum, er ákaflega vel undirbúið þegar vá af þessu tagi steðjar að. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem ameríska módelið tröllríður öllu, sjáum við hins vegar að menn eru mjög illa undirbúnir. Kerfið sem við höfum byggt upp á Íslandi er miklu betur í stakk búið til að taka á málum af þessu tagi en kerfið í stóru ríki eins og í Bandaríkjunum.