132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál til umræðu. Rétt er að draga það fram í umræðunni að við erum að lifa mikla breytingatíma á hafsvæðum við Ísland. Mikið innflæði hefur verið af hlýjum sjó norður fyrir land, seltumiklum sjó, og næsta víst að það hafi orðið til þess að færa til hin svokölluðu kuldaskil sem liggja norðvestan og vestan við landið á mótum hlýsjávarins og kaldsjávarins.

Einnig er næsta víst að við erum að horfa til þess að verulegur hluti af loðnustofninum sé á grænlensku yfirráðasvæði stóran hluta ársins eins og nú hagar til við Ísland. Og mikið skyldi það nú vera undarlegt ef þorskurinn hefði ekki fylgt á eftir ætinu að einhverju leyti og væri þar líka.

Hitt fer ekki á milli mála að á hverju ári ber loðnan inn á Íslandsmið afar mikinn orkuforða úr Norðurhöfum og kemur hér inn til hrygningargöngu á hverjum vetri og hefur svo verið og verður vonandi áfram um árabil. Svo virðist sem það að skilja eftir 400–500 þúsund tonn hafi dugað til þess að viðhalda hér loðnustofninum á undanförnum árum.

Hinu verður ekki á móti mælt að þorskur sem ekki kemst í loðnu heldur sér ekki í góðum holdum yfir árið og sést það best á því hversu mikil fiskigengd hefur verið á norðurmiðum í sumar eftir að loðna kom inn á norðvesturmiðin og að Norðurlandi þar sem þorskur hefur verið ákaflega vel haldinn miðað við það sem annars staðar hefur verið við landið.

Rétt er að vekja athygli á að þó að mikið samspil sé á milli ætis og þorskstofnsins er líka rétt að draga fram að (Forseti hringir.) ýsustofninn hefur stækkað hér við land þó að hann væri undir miklu veiðiálagi að mati Hafró.