132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:11]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru fjöldi atriða í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég ætla að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi: Allar götur síðan ég man eftir mér var verkalýðshreyfingin að reyna að hækka lægstu laun. Alltaf skyldi það fara inn í alla taxta uppmælingaaðalsins og hátekjumannanna. Aldrei tókst það, aldrei nokkurn tíma fyrr en 1995. Þá sóru menn þess eið að nota þau laun ekki sem viðmiðun við eitt eða neitt, hvorki uppmælingu né taxta né lífeyri. Ég man að þegar ég kom inn á þing voru lægstu laun 42 þús. kr. og algerlega til skammar. Nú er búið að hækka þau upp í rúmlega 100 þús. kr. (Gripið fram í: Algerlega til skammar.) Það getur vel verið að hækka megi þau meira en þá skal hv. þingmaður stofna fyrirtæki og borga há laun ef það er svona auðvelt. Ég gerði það nefnilega.

En svo leyfir Landssamband eldri borgara sér að nota þessi laun til viðmiðunar. (Gripið fram í: Þetta eru ... menn.) Sömu menn, annar í forustusveit þeirra stóð að þessum samningum sjálfur og nú leyfa þeir sér að segja að grunnlífeyririnn hafi farið stöðugt lækkandi sem hlutfall af lægstu launum. Það á ekkert að miða við lægstu laun. (Gripið fram í: Jú, jú.) Nei. (Gripið fram í: Jú, jú.) Nei, það á ekki að gera það vegna þess að unnið er að því að hækka þau án þess að það hafi áhrif annars staðar. Öll umræðan snýst um þetta, viðmiðunina. Auðvitað á að miða við meðallaun. Þar hefur grunnlífeyririnn hækkað, miða ætti við meðallaun allra landsmanna og annarra.

Varðandi þau tíu þúsund manns sem eru með undir 100 þús. kr. í tekjur. Ég bendi á að þeir sem eru á elliheimili fá felldar niður allar tekjur. Þeir eru með tekjurnar núll en fá allt greitt frá ríkinu, allt. (Gripið fram í: Líka vasapeningana?) Þeir fá einhverja vasapeninga, 10–20 þús. kall en samkvæmt skattalögum eru tekjurnar felldar niður, skv. 65. gr. Þeir koma fram með tekjurnar núll (Gripið fram í: En þeir sem eru heima?) og eru um það bil tvö þúsund af þeim ellefu þúsund sem nefnd hafa verið.