132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni mismuninn á milli opinberu sjóðanna og almennu sjóðanna og ég er margbúinn að benda á þann mismun. Hann á eftir að verða miklu alvarlegri ef vextir á markaði fara niður fyrir 3,5% sem ég sé þá stefna í.

Það sem ég nefndi áðan um dæmið sem hv. þingmaður var með, 100 þús. kr. dæmið, þá er bara margt fólk sem verður að lifa af minna en 100 þús. kr. fyrir sjálft sig. Ef slíkur einstaklingur á húsnæði borgar hann enga leigu, ef hann er í leiguhúsnæði fær hann húsaleigubætur, ef hann skuldar eitthvað fær hann vaxtabætur þannig að dæmið er ekkert skýrt til enda. Það er ekki búið að klára það a.m.k. eftir lýsingu hv. þingmanns. Ef viðkomandi einstaklingur borgar engan húsnæðiskostnað, á húsnæði skuldlaust, þá hugsa ég að margir séu verr settir en þessi lífeyrisþegi með 100 þús. kr. til ráðstöfunar fyrir sig einan til matarkaupa og fatakaupa.

Varðandi Lífeyrissjóð þingmanna, frú forseti, þá veit ég ekki um neinn þingmann sem hefur lagt til að breyta því kerfi nema mig. Ég er búinn að flytja frumvarp í tvígang um að breyta lífeyriskerfi þingmanna þannig að þeir njóti almennra réttinda eins og launþegar í landinu. Ég veit ekki til þess að hv. þm. Kristján Möller hafi flutt þingsályktunartillögu eða þingmál um að breyta lífeyrisréttindum þingmanna. Það hef ég gert.