132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[13:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú þarf ég að stafa þetta mjög hægt. Ég sagði eitt sinn fyrir löngu síðan að þau vandamál sem ég hef kynnst hjá öryrkjum og væru óleysanleg — hjá einstökum öryrkjum, fimm, sex manns ... (Gripið fram í: Það er þá ekkert mál.) Ég sagði að þau vandamál sem ég hefði kynnst hjá öryrkjum stöfuðu oftast af óreglu. Ég sagði ekkert um öryrkja alla, enda fráleitt. Það væri fráleitt að segja það. Ég sagði ekkert annað en þetta, að þau vandamál sem ég hefði kynnst hjá öryrkjum, fimm, sex manns sem hafa hringt í mig, stafa af því að menn höfðu skrifað upp á fyrir einhvern eða orðið gjaldþrota eða hreinlega að börnin þeirra væru í óreglu. Það var eitt dæmið sem ég var með, þ.e. barnið er eiturlyfjasjúklingur, ekki öryrkinn sjálfur. Þessi vandamál eru óleysanleg. Ég sagði ekkert um öryrkja almennt og þeir sem ekki skilja þetta — ja, ég veit ekki hvað á að gera. Ég held að menn ættu að biðja mig afsökunar á þessari rógsherferð.

Síðan talaði ég um Samtök aldraðra. Ég sagði ekki að það væri vitleysa eins og allt það sem kemur frá Samtökum aldraðra. Ég sagði það aldrei. Ég sagði heldur ekki að þeir hefðu verið með rangar tölur. Ég sagði það ekki, frú forseti. Ég sagði að það væri ekki heiðarlegt af þeim að nota lægstu laun sem viðmiðun vegna þess — og nú tala ég mjög hægt — að lægstu laun voru hækkuð umfram allt annað í þjóðfélaginu til að bæta kjör þeirra sem höfðu lægstu launin og það var samkomulag og svardagi allra sem að því stóðu að þau yrðu ekki notuð til viðmiðunar. Samt nota Samtök aldraðra lægstu laun til viðmiðunar varðandi ellilífeyri til að sýna fram á að ellilífeyrir hafi lækkað miðað við þau laun. Það finnst mér ekki heiðarlegt. En ég segi ekki að það sé neitt rangt sem þeir segja og ég sagði heldur ekki að það væri vitleysa. Ég sagði það aldrei. Þau orð leggur hv. þingmaður mér í munn og ég kann ekki við svoleiðis. Ég vil að menn séu nákvæmir í orðalagi, sérstaklega þegar þeir bera ávirðingar á mann.