132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:03]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að óska íslensku þjóðinni hjartanlega til hamingju með þau forustuskipti sem urðu í Sjálfstæðisflokknum í gær. Það ber hins vegar minna á stefnubreytingu hjá hinni nýju forustu en þó er stefnubreyting í einu máli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þ.e. í aðförinni að hreyfihömluðum. Landsfundarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Bergur Þorri Benjamínsson, knúði fram ályktun þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn skuli á næsta ári auka bensínstyrk til hreyfihamlaðra en skerða hann ekki eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi Árna Mathiesens, nýs fjármálaráðherra, í fjárlagafrumvarpi sem Geir H. Haarde, hæstv. utanríkisráðherra, samdi.

Það er þess vegna ástæða til að spyrja nýjan fjármálaráðherra hvort það sé ætlun sjálfstæðismanna, ráðherra og þingmanna hér í þinginu, að fara eftir stefnusamþykkt Sjálfstæðisflokksins og auka í raun og veru bensínstyrkinn til hreyfihamlaðra eða hvort það eigi bara að hafa þessa landsfundarsamþykkt um lífeyrismál að engu eins og oft áður. Og það er ástæða til að spyrja því Bergur Þorri Benjamínsson, landsfundarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði sem var að svar hæstv. fjármálaráðherra á landsfundinum um þetta atriði væri algjörlega ótækt. Nýr fjármálaráðherra vék sér undan ábyrgð á eigin fjárlagafrumvarpi. Þetta er fjárlagafrumvarp lagt fram af Árna Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra. Hann kannaðist ekkert við að bera ábyrgð á því að hér eigi að taka 720 millj. úr bensínstyrkjum til hreyfihamlaðra og hann vísaði allri ábyrgðinni á heilbrigðisráðherra.

Maður hlýtur að spyrja: Eru tvær ríkisstjórnir í landinu, eða eru þær 12? Ber þessi ríkisstjórn ekki sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum sínum? Hvað segir Framsóknarflokkurinn við þessu? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn bara ekki undan í ríkisstjórninni við að verja öryrkja og ellilífeyrisþega atlögum Framsóknarflokksins? Er það þannig sem á að skilja þetta?

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, hvort þess sé að vænta í framhaldi af landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins að breyting verði gerð á fjárlagafrumvarpinu þess efnis að bensínstyrkur til hreyfihamlaðra hækki en lækki ekki eins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt.