132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:43]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um breytingu á almannatryggingalögum.

Það hafa verið töluverðar deilur í þjóðfélaginu nokkuð lengi um kjör eldri borgara og lífeyrissjóðina og hvernig þetta komi inn í skattkerfið. Það er rétt sem hefur komið fram nú og oft á undanförnum árum að það er mikil þörf á að menn endurskoði í heild og reyni að semja og setja upp áætlun um hvernig við ætlum lífeyrissjóðunum að taka við hlutverki almannatrygginga og að hve miklu leyti og hvernig. Þetta höfum við ekki gert. Við höfum lagt í þá vegferð nokkrum sinnum, við höfum haldið nokkur seminör um þetta, farið í gegnum þetta, og það er mjög mikið efni til. En menn hafa aldrei klárað málið til fulls, að horfa til þess heildstætt. Inn í þetta kemur að sjálfsögðu skattkerfið í heild og það sem mönnum hefur kannski orðið mest tíðrætt um, þ.e. skattaáhrifin, jaðaráhrif skattanna.

Það er mikil þörf á því, virðulegur forseti, að við förum aðeins í gegnum þetta og rifjum upp hvernig þetta er allt til komið. Fyrir um 35 árum voru hér til lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna, bankamanna og nokkurra annarra en þá tók hinn almenni markaður þá ákvörðun að við hæfum uppbyggingu á söfnunarlífeyrissjóðum á grundvelli samtryggingar. Það var mikill og farsæll áfangi sem við tókum þá sem menn gerðu sér mjög vel grein fyrir því að þeir stæðu ákaflega mismunandi að vígi gagnvart lífeyrissjóðum sínum.

Það var einmitt þess vegna sem við tókum upp tekjutrygginguna árið 1971. Hún var tekin upp vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að verkamenn, sjómenn og bændur stóðu miklu verr að vígi en t.d. ríkisstarfsmenn. Sú hugsun lá að baki að reyna að brúa þetta bil þar til menn væru búnir vinna upp þessa lífeyrissjóði sem við gerðum okkur vonir um þá að takast mundi í kringum 2015. Ýmislegt hefur breyst síðan. Lífaldurinn hefur breyst, töflurnar hafa breyst, örorkulífeyristöflurnar hafa líka breyst þannig að við erum kannski nær því að tala um árið 2025 núna en 2015, þó að það sé kannski ekki nákvæmt.

Menn mega ekki gleyma því að tekjutryggingin var tekin upp til að tryggja afkomu þeirra sem stóðu verst að vígi. Þetta eiga menn að vita og gleyma því ekki í umræðunni þegar verið er að reikna jaðaráhrif skatta og menn eru að tvíreikna þetta, eins og ágætur hv. þingmaður, Guðjón A. Kristjánsson, gerði hér í frumræðu sinni. Hann tók bæði skerðingarákvæði trygginganna plús skattana og fékk út 85% jaðaráhrif skattanna. Þarna er náttúrlega verið að mála skrattann á vegginn þó að þetta sé rétt reiknað hjá honum. (Gripið fram í: Af hverju …?) Það er vegna þess að þetta er tekjutrygging. Við megum ekki gleyma því. Ef við tækjum hana af yrði það aldrei á annan veg en að þá færu þeir verst út úr því sem standa lakast að vígi í dag. Það megum við ekki gera.

Því má heldur ekki gleyma þegar við ræðum um kjör eldri borgara að þeir eru ekki einn samstæður hópur. Það er langt frá því. Þeir sem eru að komast á ellilífeyri í dag standa mun betur að vígi en þeir sem urðu ellilífeyrisþegar fyrir 20 árum þannig að okkur hefur að sumu leyti tekist að ná því sem við ætluðum að gera en að sumu leyti ekki. Við megum ekki gleyma því að þeir sem standa lakast að vígi hvað þetta varðar er að sjálfsögðu elsti hluti eldri borgaranna. Þeir áttu flestir hverjir ekki möguleika á að safna neinu í lífeyrissjóð. Auk þess eru nokkrar stéttir sem hafa verið með hálfgerða gervilífeyrissjóði, eins og Lífeyrissjóður bænda því miður, að ógleymdum heimavinnandi húsmæðrum sem aldrei hafa safnað neinu í lífeyrisreikning.

Ef við tökum tillit til allra þessara atriða, virðulegur forseti, sjáum við að það er ekki einfalt mál að ná víðtækri sátt í þjóðfélaginu um það hvernig við eigum að haga þessum málum. Eigi að síður er mjög brýnt að leggja í þá vegferð. Við verðum að reyna að ná sátt um málið og við verðum að gera það undir því formerki — og vonandi tekst okkur að ná einhverri pólitískri sátt um það — að bætur eru til þeirra sem standa lakast að vígi. Það er ekkert sjálfgefið að einhverjir eigi endilega að fá bætur af því að þeir eru svo og svo gamlir. Ég lít þannig á málið. Hvað eiga bæturnar að vera, hvar ætlum við að hafa bótamörkin?

Það er alveg rétt að þeir sem njóta bóta eru ekki vel staddir. En menn mega ekki gleyma því heldur að verkamenn og verkakonur sem vinna hér í samfélaginu eru ekki á háum launum. Það er svo langt í frá. Þó að tekist hafi að bæta kaupmáttinn verulega á undanförnum 10–15 árum er langt frá því að hinn vinnandi verkamaður sé á einhverjum háum launum. Eiga bæturnar að vera þannig að þær séu hærri en kaup verkamanna? Ég held að hvaða ríkisstjórn sem er eða hvaða pólitíska afl sem er gæti lent í meiri háttar vandræðum með slíkt. Það getum við aldrei gert.

Þarna eru atriði, virðulegi forseti, sem sannarlega er ástæða til þess að skoða og þau eru ekki einföld. Það eru skattleysismörkin. Það er mjög eðlilegt að menn vilji skoða þau vegna þess að áhrif þeirra geta virkað mjög illilega.

Í þriðja lagi er höfuðnauðsyn þegar við tökum allan þennan málaflokk upp og reynum að búa til úr honum samstæða heild að gleyma ekki því sem er aðalatriði málsins fyrir ríkið til að það geti haldið áfram að borga bæturnar og það er að gæta að skattstofninum. Við megum ekki fæla fólk frá því að vinna, það er hárrétt. Ef við getum haft það þannig að hann sé ekki vinnufælandi þá erum líka við að vinna ríkinu mjög mikið gagn. (Gripið fram í.) Að því leyti hafa sumir sagt hér ákaflega rétta hluti og góða og ég tek undir það. Það er nauðsynlegt að gæta að skattstofninum og fæla menn ekki frá vinnu. Þetta verðum við að hafa í huga.

Virðulegi forseti. Ég hef efasemdir um að smábætur á þetta kerfi geti nokkurn tíma orðið okkur að gagni. Þær tillögur sem eru í þingmálinu sem mælt var fyrir áðan og eru eflaust vel hugsaðar gagnast ekki þeim sem hafa allra minnstu tekjurnar, elsta fólkinu sem hefur heldur ekki möguleika til að vinna. Við skulum því fara yfir málið í heild, virðulegi forseti, og skoða það. Vonandi tekst að ná pólitískri sátt í þjóðfélaginu um það hvernig við högum þessum málum.