132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál um það hvernig eldri námur verði settar undir núgildandi ákvæði náttúruverndarlaga skuli vera komið aftur fram og tel mjög brýnt að því verði hraðað sem mest má.

Við fjölluðum um þetta mál í umhverfisnefnd á síðasta þingi og sendum það út til umsagnar. Við fengum inn talsvert af umsögnum og það kemur auðvitað í ljós, eins og ég veit að hæstv. umhverfisráðherra er kunnugt, að skoðanir eru skiptar og það fer þá allt eftir því hverra hagsmuna viðkomandi aðilar eiga að gæta. Umhverfisverndarsamtök fagna fram komnu frumvarpi og telja að það komi fram vonum seinna en hagsmunaaðilar mótmæla því og vilja helst ekki að settar séu neinar reglur um eldri námur.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um eitt af því að ég geri ráð fyrir að farið hafi verið vel yfir þessar umsagnir allar í umhverfisráðuneytinu og það vekur athygli mína að umsögn Umhverfisstofnunar frá því í desember 2004 leggur til breytingu á c-lið 1. gr. Athugasemd Umhverfisstofnunar varðar orðalagið „á sama svæði“ en c-liður hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Áætluð er samanlögð stækkun tveggja eða fleiri efnistökustaða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði, um 25 þúsund fermetra eða meira.“

Nú sé ég að hæstv. umhverfisráðherra hefur farið að tillögu umhverfisverndar og hefur bundið orðalagið í þessa mælieiningu, „25 þúsund fermetrar eða meira.“ En eiga þetta ekki að vera rúmmetrar?

Umhverfisstofnun hafði orð á því í umsögn sinni að hugtakið „sama svæði“ hefði ekki verið skilgreint á fullægjandi hátt, hvorki í lögum né í úrskurðum eða leiðbeiningarritum sem Skipulagsstofnun hefur gefið út um mat á umhverfisáhrifum. Hún taldi að að óbreyttu mundi þessi liður, c-liður frumvarpsins, bjóða upp á misskilning eða ólíka túlkun um hvað teldist vera sama svæði. Í umsögn sinni taldi Umhverfisstofnun eðlilegt að varpa fram spurningum um það hvort um eitt eða tvö námusvæði væri að ræða ef unnið væri efni t.d.:

„... sitt hvoru megin við ein vatnaskil, á sínum hvorum bakka sömu ár, ofan eða neðan við sömu flúðir eða í sitt hvorri skriðukeilu í Esjunni.“

Stofnunin nefnir ákveðin dæmi og leggur síðan til að c-liðnum verði breytt á þann veg að orðin „á sama svæði“ verði felld burt og c-liðurinn hljómi á eftirfarandi veg, með leyfi forseta:

„Áætluð er samanlögð stækkun tveggja eða fleiri efnistökusvæða vegna sömu framkvæmda um 25 þúsundir rúmmetra eða meira.“

Hér er Umhverfisstofnun greinilega með einhverja hugmynd um rúmmetratölu, þ.e. hversu mikið megi taka því að ég skil, þó ég sé ekki glögg á að lesa rúmmetra eða fermetra en svo er búið að breyta ákvæðinu sé ég við nánari lestur hjá hæstv. umhverfisráðherra þar sem lagt er til að orðalagið sé eins og sagði í máli mínu áðan. Það er kannski hægt að varpa frekari ljósi á þetta rúmmetra eða fermetra tal í andsvörum eða í síðari ræðu hæstv. umhverfisráðherra.

Úr því að ég er að grauta í umsögnum sem komu til nefndarinnar á síðasta ári, þegar málið var lagt fram, langar mig að nefna að Fornleifavernd ríkisins gerði athugasemd sem ég tel eðlilegt að verði skoðuð og tel að hæstv. umhverfisráðherra hafi kíkt á þá umsögn eins og aðrar. Fornleifavernd ríkisins þykir rétt að benda umhverfisnefndinni á að efnistaka getur raskað fornleifum líkt og náttúruminjum og telur nauðsynlegt að gerð sé ákveðin úttekt á fornleifum í nágrenni efnistökustaða hvort sem um er að ræða eldri námur eða nýjar námur. Hún vildi beina þeim hugmyndum inn í störf nefndarinnar hvort lagaákvæði um úttekt á fornleifum í tengslum við efnistöku eigi heima í lögum um náttúruvernd og það kann vel að vera að svo sé. Við gleymum kannski oft fornminjunum sem mögulega geta legið í landinu og ég tel alveg þess virði að athuga hvort þarna sé ábending sem vert er að skoða.

Svo var Samband íslenskra sveitarfélaga líka með efnismikla athugasemd vegna þess að ekki hafði farið fram kostnaðarmat í fyrra á þessu frumvarpi eins og samkomulag milli stjórnvalda og Sambands sveitarfélaga segir til um að eigi að gera. Það væri ágætt að fá að heyra það frá hæstv. umhverfisráðherra hvort kostnaðarmat af því tagi sem Samband sveitarfélaga óskaði eftir í fyrra hefði farið fram við endurnýjun þessa frumvarps.

Síðan held ég að skoða þurfi nánar þær umsagnir sem fyrir liggja, t.d. þarf að skoða efnismikla umsögn frá Skipulagsstofnun og það verður auðvitað gert í umhverfisnefndinni. En eins og ég segi, þetta með c-liðinn vakti athygli mína og kannski verður ljósi varpað á misskilning minn hvað hann varðar í síðari ræðu hæstv. umhverfisráðherra.