132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipulögð leit að krabbameini í ristli.

13. mál
[17:21]
Hlusta

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir við málið. Ég tek undir það sem fram hefur komið um þá mikilvægu krabbameinsleit sem verið hefur fyrir konur í landinu. Leghálskrabbameinsleit hefur verið stunduð í 40 ár og frá 1986 hefur verið skipuleg leit að brjóstakrabbameini. Við vitum hvað þetta hefur skipt miklu máli og hvað það skiptir miklu máli ef krabbamein er á ferðinni að það uppgötvist sem fyrst. Það þekkjum við öll hér. Mikið talað um að slík leit sé dýr og við spyrjum í tillögunni:

„Er skimun „góð kaup“? Fáir illkynja sjúkdómar fullnægja nær öllum settum skilyrðum fyrir skimun eins og raunin er með krabbamein í ristli. Þess vegna er oft á tíðum fullyrt að koma megi í veg fyrir þetta krabbamein með réttum aðgerðum. En það kostar fyrirhöfn og fjármuni. Áður hefur verið minnst á aðferðir eins og kostnaðarvirknigreiningu sem notuð er til að meta afleiðingar og kostnað aðgerða sem ætlað er að bæta heilsu almennings.

Nýleg skýrsla hagfræðideildar Háskóla Íslands staðfestir hagstætt eða lágt kostnaðarvirknihlutfall á skimun fyrir krabbameini í ristli. Íhlutun sem hefur lágt hlutfall mundi því í þessu samhengi teljast góð kaup og njóta forgangs við ráðstöfun heilbrigðisútgjalda. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri og viðameiri erlendar athuganir á kostnaðarvirknigreiningu skimunar fyrir ristilkrabbameini og er hlutfallið lágt. Þar gildir einu hvaða þekktri leitaraðferð er beitt og kostnaðarvirknihlutfallið er lægra en við margar aðrar íhlutanir sem við nú beitum og greiðum fyrir í heilbrigðisþjónustunni.“

Svo vísað sé til vinnuhóps landlæknis þá segir í því áliti að ítarlegar og vandaðar rannsóknir hafi verið gerðar á gagnsemi skipulegrar skimunar fyrir blóði í hægðum með þátttöku nokkur hundruð þúsund einkennalausra einstaklinga á aldrinum 45–75 ára. Niðurstöður eru skýrar og benda eindregið til þess að með slíkri leit megi fækka dauðsföllum vegna sjúkdómsins um allt að fjórðung. Slík leit er jafnframt talin hagstæð þegar miðað er við aðrar forvarnaaðgerðir. Fyrir rúmum tveimur árum birtist grein í erlendu tímariti þar sem reynt var að meta innbyrðis mikilvægi ýmissa forvarnaaðgerða. Litið var bæði til forvarnagildis aðgerðanna og hlutfalls kostnaðar og virkni. Höfundar gáfu forvarnaaðgerðum stig á grundvelli þessarar úttektar. Meðal þeirra aðgerða sem fengu 8 eða fleiri stig af 10 mögulegum voru ungbarnabólusetningar, tóbaksvarnir, sjónpróf hjá 65 ára og eldri, vímuvarnir hjá unglingum, skimun fyrir leghálskrabbameini, skimun fyrir ristilkrabbameini, PKU- og TSH-skimun hjá nýburum, háþrýstingsleit og inflúensubólusetningar. Víða í Evrópu, t.d. í Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Tékklandi og Frakklandi, hafa heilbrigðisyfirvöld tekið einarða afstöðu með ristilkrabbameinsleit og greiða fyrir hana. Heilbrigðisnefnd Evrópusambandsins hefur nú hvatt heilbrigðisyfirvöld aðildarlanda til að beita sér fyrir slíkri skimun.

Hagfræðistofnun áætlaði kostnað vegna leitar í aldurshópnum 50–75 ára á bilinu 117–147 millj. kr. Var þá gert ráð fyrir að 38 þúsund manns undirgengjust skimun, 3.000 ristilspeglanir yrðu gerðar og 64 tilvik fyndust. Vitað er að um fjórðungur fólks á þessum aldri er með sepa og má áætla að slíkt fyndist þá hjá um 750 manns með ristilspeglun. Vitað er að um 6% sepa í ristli geta leitt til krabbameins sem í þessu tilviki svarar til um 45 manns. Má því gera ráð fyrir, séu separ með forstigum krabbameins teknir með í reikninginn, að 110 manns greindust með krabbamein eða forstig á grundvelli framangreindrar skimunar. Kostnaður við að finna hvert tilvik yrði því um 1,4 millj. kr. Vinnuhópurinn mælir því með:

1. skimun á tveggja ára fresti,

2. skimun í aldurshópnum 55–70 ára,

3. að leitin sé skipuleg, þ.e. að boðun, skimun, skráning og eftirlit verði miðstýrð,

4. gerð skrár fyrir einstaklinga sem eru í mikilli áhættu.

Hvert stefnir? Flestir eru sammála um að ekki sé lengur réttlætanlegt að hika við að ráðleggja skimun fyrir þessu krabbameini. Sem stendur er fyrst og fremst deilt um „bestu“ aðferðina en því hefur einnig verið haldið fram að besta aðferðin sé raunverulega sú sem beitt er. Í mörgum löndum, eins og ég greindi frá áðan, hafa heilbrigðisyfirvöld tekið einarða afstöðu. Þau mæla með skimun fyrir þessu krabbameini og greiða að fullu fyrir ákveðnar skimunaraðferðir. Þá hafa Finnar hafið skipulega skimun (23. september 2004) og bresk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið vilyrði um að hefja slíka skimun eða leit í byrjun árs 2006. Danir eru að huga að því að hefja skimun á næsta ári. Þá hafa ýmis fagfélög og samtök, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, mælt með markvissum fræðsluaðgerðum og skimun fyrir þessu krabbameini. Bandaríkjamenn eru þjóða ötulastir á þessu sviði en þar í landi hafa sérfræðingar á liðnum árum merkt lægri tíðni ristilkrabbameina og færri dauðsföll af þeim sökum. Þar í landi álykta menn að öflug fræðsla og hvatning til fólks yfir fimmtugu um að koma í skoðun hafi skilað tilætluðum árangri. Þar hefur lengi verið lögð áhersla á baráttuna gegn þessu krabbameini og nú eru Evrópuríkin farin að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að gera slíkt hið sama. Heilbrigðisnefnd Evrópusambandsins hefur hvatt heilbrigðisyfirvöld í aðildarlöndunum til að beita sér fyrir skimun að þessu krabbameini, ásamt skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini. Nefndin hefur og tekið skimun fyrir ristilkrabbameini upp í endurskoðuðum tilmælum, sýnum og reglum í baráttunni gegn krabbameini (European Code Against Cancer). Það er athyglisvert að þetta er í fyrsta sinn sem mælt er með skimunaraðgerðum er beinast að karlmönnum.

Mikilvægt er að hugað sé vel að kostnaðarvirknigreiningunni og árangursmati á greiningu og meðferð á ristilkrabbameini og væntanlegri fjölgun tilfella á næstu áratugum. Íslendingar geta í rauninni tekið forustu á þessum vettvangi vegna mikillar kunnáttu og reynslu af skimunaraðgerðum sem framkvæmdar hafa verið hér á landi í áratugi með einstökum árangri.

Mikið og gott forvarnastarf á ýmsum sviðum hefur verið unnið hér á landi í mörg ár. Í þessum verkefnum hefur bestu þekkingu á hverjum tíma verið beitt og áhersla lögð á bættan lífsstíl, þ.e. hollt mataræði, reykleysi, góða hreyfingu og stjórn á líkamsþyngd. Það er skynsamlegt að beita fræðslu og aðgerðum til að auka lífsgæði og forða fólki frá sjúkdómum. Orðatiltækið „of seint er að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í“ segir allt sem segja þarf.

Það er eðlilegt að nútímafólk spyrji: Hvað get ég gert til að auka lífsgæði mín og forðast sjúkdóma? Þá verðum við að vera reiðubúin að liðsinna því með jákvæðu hugarfari og miðla þeirri þekkingu sem fyrir liggur á hverjum tíma. Fortölur og neikvæð viðhorf gagnast ekki fólki á tímum aukinnar þekkingar og framfara í læknavísindum.

Fræðsla til almennings er lykilatriði í baráttunni gegn þessum sjúkdómi. Fyrir tveimur árum var farið í fræðsluátak sem gekk undir nafninu Vitundarvakning gegn ristilkrabbameini. Gallup-könnun sem gerð var skömmu áður opinberaði vanþekkingu okkar hér á landi á þessu algenga krabbameini. Í könnun sem gerð var í Austurríki kom í ljós að aðspurðir óttuðust jafnmikið dauða vegna slysfara og krabbameina. Þessar dauðaorsakir óttuðust aðspurðir líka mest. Hins vegar er athyglisvert, þegar rýnt er í tölfræðina, að venjulegur Evrópubúi er í 2,5 sinnum meiri áhættu að deyja af völdum ristilkrabbameins en að deyja í umferðarslysi.

Skimun er því fyllilega tímabær og tímabært að beita markvissum aðgerðum með fræðslu, forvörnum og skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina hér á landi. Mannslífum verður bjargað og með betri meðferð batna horfur fólks og lífsgæði. Rök gegn forvarnaaðgerðum sem beinast að krabbameini í ristli og endaþarmi verða að vera mjög sterk í ljósi þeirrar þekkingar sem nú liggur fyrir varðandi þennan sjúkdóm.

Nýgengi sjúkdómsins fer vaxandi og vegna vaxandi aldurs þjóðarinnar munum við verða fyrir auknum búsifjum af hans völdum í náinni framtíð. Hér á landi er áratuga reynsla á sviði skipulagðrar leitarstarfsemi að krabbameinum. Þá þekkingu og reynslu ber að nýta og mun það auðvelda allar aðgerðir á þessu sviði. Með slíkt veganesti getum við verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar í baráttunni gegn þessum banvæna sjúkdómi sem fer ekki í manngreinarálit, getur brugðið fæti fyrir okkur öll og kemur alltaf á óvart.

Hæstv. forseti. Að loknum þessum umræðum óska ég eftir að þingsályktunartillögunni verði vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar.