132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:31]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það einu sinni enn að ég tel þetta ekki tímabært, m.a. vegna þess að nú stendur yfir lokaáfangi WTO-samninganna yfir. Við vitum ekki hvernig farið verður með þessar beingreiðslur eftir að sá samningur verður að veruleika. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson er að reyna að túlka mín orð. Ég hef aldrei sagt að ég teldi þetta vera of stór bú. Það er meira með greiðslurnar. Búin hafa verið að stækka. Þau hafa orðið hagkvæmari. Fólk getur lifað af þessum búum núna sem það gat kannski ekki áður og það er vegna þess að það hefur getað keypt og selt mjólkurkvóta. Bændur sem hafa selt mjólkurkvóta, kannski fullorðnir bændur, hafa fengið sæmilegt verð fyrir það. Þetta er kannski það sem þeir hafa eftir sitt lífsstarf. Það er bara ekkert að því að þeir hafi eitthvað fyrir sig.

Eins og ég sagði áðan þá held ég að það sé ekkert bú komið upp í þetta. Margir eiga meira að segja erfitt með að framleiða upp í þann mjólkurkvóta sem þeir hafa í dag. Síðan má ekki gleyma því að mjólkurframleiðslan er svo viðkvæm vegna náttúrunnar að ef það er grasleysi, ef það er kal, ef það er mikið rigningarsumar þá gengur bara erfiðlega að heyja og fóðrið verður ekki nógu gott og þar af leiðandi verður minni mjólk.

Síðan vil ég bara minna á að nú eru aftur að hefjast umræður um hvort eigi ekki að flytja inn nýtt kúakyn, t.d. norsku kúna.