132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Leyfisveitingar til fyrirtækja.

169. mál
[14:31]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir því að einfalda leyfisveitingar til fyrirtækja, svo sem til veitingahúsa. Svarið við því er einfalt, svarið er já. Fyrir stuttu síðan samþykkti ríkisstjórnin áætlun undir nafninu „einfaldara Ísland“. Það var tillaga sem forsætisráðherra lagði fram og það starf er þegar farið í gang. Gert er ráð fyrir því að hvert og eitt ráðuneyti fari í gegnum þessa hluti, einfaldi reglugerðir sínar, bendi jafnframt á hvað hægt væri að einfalda í löggjöfinni. Ég tel mjög mikilvægt að ekki einungis ráðuneytið hafi þetta í huga heldur og Alþingi, þannig að við lagavinnuna á Alþingi hefðu menn hliðsjón af því. Mér finnst nauðsynlegt að allir leggist á eitt um þau mál og ég fagna áhuga hv. þingmanns í þeim efnum.