132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég get þakkað fyrir það svar sem hér kom fram þó að ekkert nýtt væri í því heldur nánast endurtekning á því sem ég rakti í aðdragandanum, hversu lengi þetta er búið að vera hjá ríkisstjórn í vinnslu og ekkert gerist. Það er líka hárrétt sem hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi að ég mun vekja athygli á þessu máli eins og þarf þar til þetta næst upp. Ég minnist þess líka að margt jákvætt kom fram í fyrra eins og það að steypubílar væru notaðir við sláturtíð á Suðurlandi, eins og einn ágætur fréttahaukur, Haukur Hauksson, nefndi en nóg um það.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að stoppa aðeins við það svar sem hæstv. iðnaðarráðherra veitti. Hún rakti hvernig hún hefur verið að bögglast með þetta inni í ríkisstjórn en fengið litlar undirtektir. Ég ætla að gefa mér, virðulegi forseti, að einhver áhugi sé hjá hæstv. ráðherra á því að taka upp annaðhvort flutningsjöfnun eða það sem ég hef bent á að er kannski álitlegra og fljótvirkara, að lækka skattheimtu, en ekki hafi náðst samstaða um það í ríkisstjórn, eins og hæstv. ráðherra sagði. Er það þá svo, virðulegi forseti, má lesa það út úr þessu svari að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins stoppi þetta mál? (Gripið fram í: Já, já.) Já, já, heyrði ég (Gripið fram í: Það hlýtur að vera.) já, hérna hægra megin þá.

Það hlýtur að vera svo, virðulegi forseti, og þá finnst mér að iðnaðarráðherra eigi bara að segja okkur það. Ég mundi þá vissulega taka upp aðra hætti og fara kannski að skamma hæstv. fjármálaráðherra og spyrja hann í staðinn fyrir að vera alltaf að spyrja iðnaðarráðherra sem getur ekkert nema endurtekið gömul lúin svör, gamlar lummur þar sem ekkert nýtt kemur fram. Það er ekkert gert í þessu máli. Það er staðreyndin, virðulegi forseti, og ég spyr aftur: Er það svo, virðulegi forseti, að ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn í heild sinni stoppi aðgerðir í þessum efnum?