132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

31. mál
[12:19]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með það kortlagt hve stór þessi skattstofn er t.d. í Bandaríkjunum, Kanada, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi, þeim ríkjum sem ég vísaði til og eru öll með hærri skattprósentu á fjármagnstekjur en Íslendingar. Við erum væntanlega öll sammála um að við viljum standa straum af kostnaði við velferðarþjónustu, að verulegu leyti alla vega, úr ríkissjóði, úr opinberum sjóðum. Til þess að svo megi verða þarf að afla peninga. Spurningin er þá þessi: Hvernig á að gera það? Ætlum við að gera það með því að ná því öllu í gegnum tekjuskatt á laun launafólks? Ætlum við að taka það í óbeinum sköttum, fyrirtækjasköttum eða skattlagningu á fjármagn? Við leggjum það til að við reynum að færa þessa skattlagningu í það horf að hlutfallið sé það sama og þetta er skref í þá átt. Finnst mönnum eitthvert réttlæti í því að skattleggja launamann fyrir hans vinnu um 37,7% en hinn sem hefur tekjur og framfæri sitt af fjármagni um 10%? Mér finnst ekkert réttlæti í því. Spurningin er: Hvar ætlum við að afla peninganna og hvernig ætlum við að afla peninganna?