132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:46]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að það kemur mér verulega á óvart að umræðan um þetta verkefni skuli vera með þessum hætti. Mál þetta var, eins og hefur komið fram, tvívegis rætt í forsætisnefnd nú í september og var samstaða um þá niðurstöðu sem þar náðist. Það kemur mér því verulega á óvart að um þetta skuli gerður ágreiningur með þeim hætti sem við sjáum hér í dag.

Í málflutningi hv. þm. Marðar Árnasonar og hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar finnst mér gæta verulegs misskilnings þegar látið er í veðri vaka að sá maður sem ráðinn var til þessa verks hafi ekki til að bera þá hæfni eða þann bakgrunn sem hentar til verkefnis af þessu tagi. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt og lýsa á einhvern hátt misskilningi varðandi það verkefni sem hér um ræðir.

Eins og hæstv. forseti gat um áðan hefur það nú verið svo að þeir sem ritað hafa um stjórnskipunarsögu Íslendinga hafa undantekningarlaust verið lögfræðingar að mennt. Þeir hafa jafnframt átt sér bakgrunn í stjórnmálum sem hefur gefið þeim aukinn skilning á þeim viðfangsefnum sem þeir fást við. Það sama á við um Þorstein Pálsson. Hann er lögfræðingur að mennt, hann hefur gegnt virðingarmiklum og ábyrgðarmiklum störfum í stjórnmálum sem gera það að verkum að hann hefur kynnst starfi þingsins sérstaklega, störfum í ríkisstjórn sérstaklega, og þess vegna finnst mér það sérstakt fagnaðarefni að maður með reynslu og bakgrunn Þorsteins Pálssonar skuli fást til þessa verks á þessum tímapunkti. Það er í rauninni alveg sérstakt tækifæri að fá mann eins og Þorstein með þennan bakgrunn til verksins.

Það verður að geta þess líka að (Forseti hringir.) með honum í ritnefnd eru settir tveir afar vandaðir fræðimenn sem að sjálfsögðu munu leggja gott til málanna við ritun verksins.