132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þessi umræða mjög undarleg, um styrkina til frjálsu félagasamtakanna. Eins og ég nefndi áðan velja þau sjálf til hvaða verkefna þau sækja styrki. Í þeim geta verið fólgnir t.d. ferðastyrkir.

Ég er ekki að kveinka mér undan gagnrýni frjálsra félagasamtaka. Þau hafa allan rétt á henni og sjálfsagt fyrir frjáls félagasamtök að gagnrýna stjórnvöld ef þeim finnst ekki að þau standi í ístaðinu gagnvart ýmsum málum. Ég nefni t.d. ferðastyrki þar sem er verið að fara á ráðstefnur erlendis og þá gætu jafnvel komið út úr því gagnrýni á íslensk stjórnvöld. Hvað er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir að tala um? Ég skil ekki þessa umræðu. Vegna þess að það er alveg augljóst að eitthvað af þeim fjármunum sem fara til frjálsra félagasamtaka gæti verið notað í verkefni sem væru m.a. til þess fallin að gagnrýna síðan íslensk stjórnvöld. Það er því ekki verið að ritskoða það á einn eða neinn hátt. Það er algjör firra.

Að halda því fram í einhverri alvöru að hægri menn séu á móti umhverfismálum eða frjálsum félagasamtökum, það finnst mér vera að snúa hlutunum algerlega á hvolf. Í mínum huga sem hægri manns, sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru frjálsu félagasamtökin eitt af því sem við höfum í gegnum tíðina alltaf staðið vörð um.