132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur varpað til mín spurningu sem er þess eðlis að ég gæti sennilega notað töluvert langan tíma eftir að ég læt af þingstörfum einhvern tíma í hárri elli til þess að skoða það til hlítar. Ég get ekki svarað þessari spurningu að nokkru marki. Ég dreg hins vegar í efa að sú kenning sem kom fram undir lok ræðu hv. þingmanns sé rétt. Kenningin gekk út á það að hvalastofnarnir hefðu hugsanlega eytt eða gengið svo harkalega að stofninum fyrir það ártal sem hann nefndi að þegar þeir voru fjarlægðir úr vistkerfinu með hömlulausum veiðum þá hefðu stofnarnir náð að dafna aftur. Það er hugsanlegt að hvalir hafi verið svo margir að þeir hafi tekið neðar úr fæðukeðjunni, átu eða æti sem hafi hugsanlega staðið undir þessum nytjastofnum og það hafi leitt til þessa. Ég held hins vegar ekki að það hafi verið hitahvörf í umhverfinu sem hafi valdið þessu. Ef þetta væri spurningakeppni mundi ég sem sagt svara þessari spurningu: Pass.

Af því að við vorum báðir að tala hér um sjálfstæði og samkeppni hugmynda langar mig að benda á það sem ég kom ekki að í ræðu minni áðan og tengist því sem hv. þingmaður sagði, að nýjar hugmyndir og nýsköpun í fiskifræði á Íslandi síðustu áratugi hafa ákaflega margar komið fram utan Hafró. Það var veðurfræðingur sem t.d. benti á tengslin á milli nýliðunar og magns stórþorsks í hrygningarstofninum og það voru menn úr öðrum fræðum sem bentu á tengsl farsællar hrygningar og veðurfars og líka streymis jökulelfa fyrir Suðurlandinu. Þetta sýnir að steypa þarf saman ólíkum hugmyndum, ólíkum greinum og leyfa frjálsum vindum (Forseti hringir.) rökræðu og gagnrýni að leika um þessi fræði.