132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Stefna ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum.

[15:08]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki heyrt um það að fólk kaupi viðbótarþjónustu inn á heilbrigðisstofnanir. Það kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku að þeir sem hafa efni á því kaupa viðbótarstarfsfólk fyrir sína nánustu inn á stofnanirnar. Þar er auðvitað verið að mismuna og þar verða þeir afskiptir sem hafa minna milli handanna.

Ég kalla eftir því frá hæstv. ráðherra að hann sjái til þess að gætt verði jafnræðis meðal þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum. Það er ekki nóg að sinna bara grunnþættinum, það þarf einnig að sinna félagslegum þætti og sérstaklega hjá þeim sem eru alzheimersjúklingar eins og þeir sem verið var að ræða um í þessum viðtölum. Þar er grunnþjónusta ekki næg þannig að ég kalla eftir því frá hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að tryggja að þarna verði gætt jafnræðis inni á hjúkrunarheimilum í þeirri nauðsynlegu þjónustu sem þar þarf að veita? Það hefur komið fram að hún er ekki veitt.