132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[15:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Nefnd á vegum dómsmálaráðherra hefur nýlega skilað tillögum að breyttri skipan lögreglumála í landinu. Það er eðlilegt að hugað sé að skipan sýslumannsembætta og lögreglumála reglulega, ekki síst með tilliti til breyttra samgangna og búsetumynsturs. En löggæslan og starfsemi sýslumanna er einmitt einn mikilvægasti þáttur í almannaþjónustunni. Þessi embætti eru þjónustustofnanir og umboðsaðilar ríkisins í héraði auk þess sem sýslumennirnir fara með lögreglustjórn. Nærþjónusta sem þessi skiptir því íbúana afar miklu máli. Þá ber og að horfa til þess að opinber störf, sýslumanns- og lögregluembætti, skipta hin minni samfélög gríðarlega miklu máli hvað fjölbreytni atvinnulífs varðar.

Dómsmálaráðherra hefur boðað að allt að 15 sérgreind störf og verkefni verði flutt til Blönduóss og byggð upp við sýslumannsembættið á staðnum og því fagna ég. Ég tel að þar hafi verið tekið myndarlega á og vonandi verður framhald á við önnur embætti.

Starfsemi lögreglumanna tengist ekki eingöngu löggæslumálum, að elta uppi þjófa og þá sem brjóta umferðarlög, sem mér finnst þessar tillögur taka allt of mikið mið af. Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunarstarfa á landi. Þjónusta lögreglunnar, a.m.k. úti á landi er ekki síður tengd fjölþættri aðstoð og leiðsögn við hinn almenna borgara, aðstoð í erfiðri færð, við slys eða önnur neyðartilvik, að taka þátt í sjúkraflutningum, björgunarstörfum og ýmiss konar almannaþjónustu. Þar skiptir nálægð þjónustunnar ekki síst máli og er afar mikilvæg fyrir strjálbýlar, fámennar, víðfeðmar eða einangraðar byggðir. Ef þetta væri ekki fyrir hendi gætu þær orðið án þjónustunnar. Sem betur fer fara vegasamgöngur stöðugt batnandi en því fer fjarri að viðunandi sé og þær séu öruggar í verstu veðrum. En þegar aðstæður eru erfiðastar þá er þörfin iðulega mest.

Í tillögunum er lagt til að lögregluembættum verði fækkað í 15 og af þeim verði sjö eins konar lykilembætti. Lagt er til að Reykjavík verði eitt lykilembætti og lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu sameinuð. Á Vesturlandi er gert ráð fyrir að löggæslan í Búðardal og Hólmavík verði færð undir Borgarnes, svo og löggæslan á Reykhólum. Á Vestfjörðum er gert ráð fyrir því að löggæslan á sunnanverðum Vestfjörðum frá Patreksfirði færist undir Ísafjörð. Á Norðurlandi er gert ráð fyrir því að Akureyri verði lykillögregluembætti sem önnur lögregluembætti á Norðurlandi heyri óbeint undir, en löggæsla á Siglufirði og á Ólafsfirði verði sameinuð lögreglunni á Akureyri. Þó má benda á að Siglufjörður er nú í vegasambandi við Skagafjörð en varla við Akureyri.

Frú forseti. Við umfjöllun um tillögurnar er undirstrikað að ná þurfi breiðri og góðri samstöðu um þær tillögur sem settar verða í framkvæmd. Mér sýnist af þeirri umfjöllun að fyrst og fremst hafi verið haft samráð við félög sýslumanna og félög lögreglumanna. Það er gott en mér finnst nokkuð skorta á að haft hafi verið tilhlýðilegt samráð við sveitarfélögin og íbúa á viðkomandi svæðum.

Hvert sem framhaldið á þessum tillögum verður hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra haga frekari vinnu úr framkomnum tillögum um nýskipan lögreglumála í landinu sem tryggi eðlilega aðkomu og áhrif sveitarstjórna og íbúanna á mótun og mögulega framkvæmd þeirra hugmynda áður en lengra er haldið?

2. Hvernig sér ráðherra fyrir sér stjórnsýslulega stöðu og verkefni sýslumannsembætta, sem missa frá sér yfirstjórn lögreglumála samkvæmt þessum tillögum? En nokkur sýslumannsembætti missa frá sér lögregluna ef þessar tillögur verða að veruleika.

3. Finnst ráðherra tekið nægjanlegt tillit til landfræðilegra aðstæðna þegar leggja á niður forsjá lögreglumála á stöðum eins og Búðardal, Patreksfirði, Hólmavík, Siglufirði og Höfn, svo að dæmi séu tekin, í ljósi krafna og markmiða sem sett eru fram í tillögunum um öfluga og örugga nærþjónustu lögreglunnar?