132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:33]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Undanfarnar vikur hefur þjóðin þurft að horfa upp á sláandi fréttir um aðstæður og aðbúnað eldri borgara á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þrátt fyrir frábært starfsfólk á þessum heimilum getur ástandið sums staðar verið mjög erfitt og hafa t.d. aldraðir íbúar á Sólvangi í Hafnarfirði allt að helmingi minna rými til afnota en kröfur heilbrigðisyfirvalda kveða á um. Hjúkrunarforstjórinn hefur sagt að sjúkradeildir séu blandaðar mjög ólíku fólki og að fólk sé jafnvel sett í lyfjafjötra sé áreitið of mikið. En ríkisstjórnin segir að almennra úrbóta á Sólvangi sé hins vegar ekki að vænta fyrr en árið 2008. Frú forseti. Það er bara allt of seint. Við þurfum tafarlausar aðgerðir.

Frú forseti. Komið hafa fram upplýsingar um að á hjúkrunarheimilinu Skjóli hefur fólk neyðst til að ráða sér sérstaka starfskrafta inn á hjúkrunarheimilið fyrir eigin kostnað. Hæstv. forsætisráðherra sagði í gær að hann kannaðist ekkert við þessar upplýsingar þrátt fyrir að þær hafi tröllriðið samfélaginu í meira en viku. Þessir aðkeyptu starfskraftar hafa meira að segja séð um grunnaðhlynningarhætti, svo sem matargjafir og klósettferðir og dæmi eru um að þeir hafi unnið ásamt viðkomandi fjölskyldu í allt að 270 stundir á mánuði á stofnuninni. Einnig veit ég til þess að fólk hefur ráðið starfsfólk í umönnun heim til sín fyrir eigin kostnað þar sem það hefur álitið sig vera útskráð of snemma af heilbrigðisstofnun eða það telur sig ekki fá nægilega heimahjúkrun. Hér erum við komin með staðfestingu á tvöföldu kerfi í velferðarkerfinu sem Samfylkingin mun aldrei sætta sig við. Þjónusta við aldraða er látin drabbast niður þannig að þeir sem hafa efni á neyðast til að ráða sér sérstakan starfsmann inn á stofnanir ríkisins. Hinir sem hafa ekki efni á slíku eru látnir sitja eftir.

Er þetta velferðarkerfi sem Íslendingar vilja sjá og búa við? Ég segi nei, frú forseti. Samfylkingin og Samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á bág kjör eldri borgara en þriðjungur þeirra þarf að lifa á 110 þús. kr. á mánuði eða minna. Á fjórða hundrað manns er í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og þó aðallega í Reykjavík. Nú bætast við þessar fréttir af lélegum aðbúnaði eldri borgara og tilvist tvöfalds kerfis sem mismunar fólki eftir efnahag.

Frú forseti. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um forgangsröðun. Til að átta sig á forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar er mikilvægt að hafa í huga að Sólvangur fær minna á fjárlögum en það sem Bændasamtökin fá á fjárlögum og þá er ég ekki að tala um sjálfa búvörustyrkina sem eru auðvitað miklu hærri. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta kemur allt úr sama pottinum og snýst um forgangsröðun.

Ríkisstjórnin hefur verið að stæra sig af lækkun skatta um tugi milljarða kr. Því langar mig að spyrja Íslendinga hvort þeir telji ekki að við ættum fyrst að tryggja eldri borgurum landsins viðunandi búsetuskilyrði, eðlilegt valfrelsi og mannsæmandi kjör áður en við förum í stórfelldar tekjuskattslækkanir sem koma sér best fyrir hina vel stæðu í samfélaginu.

Frú forseti. Að lokum langar mig til að beina þeim spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé tilbúinn að hraða enn almennum endurbótum á Sólvangi og hvernig hann muni bæta aðbúnað og aðstæður eldri borgara. Sömuleiðis hvort ráðherra muni standa fyrir breytingu á daggjaldakerfinu í ljósi þess að meira en helmingur allra öldrunarheimila í landinu er rekinn með halla. Og að lokum hvort hæstv. heilbrigðisráðherra muni sætta sig við tilvist tvöfalds kerfis í velferðarkerfinu, eitt fyrir hina vel stæðu og eitt fyrir alla hina.