132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:32]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka ráðherra og öðrum þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni um vanda rækjuiðnaðarins kærlega fyrir. Ég verð þó að segja að því miður verður bjartsýnin ekki mikil eftir þessa umræðu. Hún hefur ekki aukist þótt hér hafi verið skipuð enn ein nefndin eins og áður hefur verið gert og talað um, minnt á hágengisstefnunefnd fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra o.s.frv.

Það er auðvitað ekki við núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra að sakast varðandi 9. gr. og meginspurningu mína í þessari umræðu. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra verður að svara því hvers vegna úthafsrækjuveiðiskipum er ekki bættur skaðinn eins og innfjarðarrækjuveiðiskipum og þeim sem veiddu hörpudiskinn. Þessi öryggispottur, þessi varúðargrein, 9. greinin á að virka eins og nú er að gerast með úthafsrækjuveiðina. Hvers vegna var það ekki notað á sínum tíma? Hvers vegna voru 1.685 tonn notuð fyrir innfjarðarrækjuna og 1.411 þorskígildi fyrir hörpudiskinn en ekkert fyrir úthafsrækjuna? Hvar er afgangurinn úr 9. greininni núna? Ég spyr hæstv. ráðherra. Er eitthvað í þessum potti núna eða er, eins og maður náttúrulega veit, búið að úthluta þessu öllu þannig að öryggispotturinn er enginn heldur hefur honum öllum verið úthlutað?

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt um hágengi og annað slíkt sem sligar atvinnulífið. Meðal annars hafa menn rætt um húsnæðislán, lækkun skatta og annað slíkt. Ég ætla rétt að vona, virðulegi forseti, að Seðlabankinn vogi sér ekki að hækka stýrivexti um 0,5% eða eitthvað slíkt enn einu sinni. Það mundi ýta enn þá meira undir spákaupmennsku sem á sér stað um þessar mundir, sem er aðalorsökin fyrir styrkingu krónunnar síðustu missiri, þ.e. gegndarlaus kaup erlendra aðila á íslenskum krónum. Ef það heldur áfram (Forseti hringir.) eða önnur eins ræða verður flutt og fyrrverandi seðlabankastjóri, Birgir Ísleifur Gunnarsson, flutti um vaxtastefnuna (Forseti hringir.) þá óttast ég miklu meiri innkaup og frekari styrkingu krónunnar.