132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:40]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málið sem hér er til umræðu á sér margar hliðar. Ein þeirra snýr að umhverfismálum, önnur að efnahagsmálum landsins þessi árin og enn önnur að uppbyggingu atvinnulífsins á landinu almennt.

Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að fólk um land allt væri að hugsa um atvinnumál. Það er rétt. Fólk á stórum hluta landsins er að hugsa um atvinnumál og hefur miklar áhyggjur vegna þess að stórum hluta landsins er ekki sinnt þegar kemur að uppbyggingu atvinnu. Það er alvarlegt mál.

Mér er spurn hvort hæstv. ríkisstjórn ætli að halda áfram þeirri stefnu sinni, sem birst hefur mörg undanfarin mörg ár, í að sinna aðeins tilteknum hlutum landsins, örfáum, og stefna sem mestum hluta landsmanna til Reykjavíkur eða á þetta svæði hér en láta aðra íbúa landsins búa við óvissu, við að eignir þeirra verði verðlausar meira og minna og vita ekki hvað bíður þeirra.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að við íbúar landsbyggðarinnar megum búa við það að aðgerðir í samgöngumálum eru dregnar saman ár eftir ár til að hafa hemil á þróun efnahagsmála vegna stóriðjuframkvæmda. Framkvæmdir á Austurlandi eiga sér vissulega málsbætur, með tilliti til atvinnuþróunar þar mörg undanfarin ár. En þar má líka kenna hæstvirtri ríkisstjórn um því að hún var búin að svíkja þann landshluta um aðgerðir árum saman. En nú er nóg komið. Ég vil fara að sjá aðgerðir sem beinast að Norðvesturkjördæmi og öðrum þeim hlutum landsins sem búa við afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar.