132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:06]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Í einfeldni minni vissi ég í raun ekki til þess að þessi þingsályktun lægi inni og væri óframkvæmd hjá framkvæmdarvaldinu, sem um leið kallar á það tækifæri að mínu mati að hæstv. forsætisráðherra kynni sér áhugavert verkefni sem á sér stað suður í Keflavík er snýr að ferðaþjónustu. Það verkefni hefur fengið heitið Blái demanturinn, en eins og við öll vitum eru fjögur horn á demanti ef við horfum á hann með þeim hætti. Eru þrjú þeirra nú þegar til. Fyrsta hornið er Bláa lónið, annað hornið er The Blue Wiking, sem eru víkingaheimar sem eru komnir á kortið hjá Reykjanesbæ, þriðja hornið, sem er komið á dagskrá hjá Hitaveitu Suðurnesja, verður The Blue Energy sem er jarðsögusafn upp á 120 millj. kr. sem mun verða reist við virkjun Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi, og fjórða hornið, sem er styst á veg komið í þessari frábæru hugmynd sem snýr að ferðaþjónustu, er nokkuð sem mun verða kallað The Big Blue en þar verður um að ræða þemagarð (Forseti hringir.) sem snýr að sædýragarði. Finnst mér tilvalið að hæstv. forsætisráðherra kynni sér þær hugmyndir sem er að finna þar á bæ suður í Keflavík.