132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Könnun á fjarsölu og kostun.

194. mál
[15:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það eru liðin sex ár síðan ég bar fyrst fram fyrirspurn um kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi úr þessum ræðustóli. Þá átti ég orðastað við hæstv. þáv. menntamálaráðherra Björn Bjarnason. Ég hafði ástæðu til þess á þeim tíma að fara í ræðustól vegna þessa máls því að ég taldi 21. gr. útvarpslaganna vera þverbrotna meira eða minna af öllum ljósvakamiðlunum sem á annað borð buðu upp á kostun. Ég tel svo enn vera, hæstv. forseti.

Hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra svaraði mér því til á sínum tíma að grunnprinsippið í þessari kostun væri að birta nafn viðkomandi kostunaraðila en ekki auglýsa vöru hans eða þjónustu. Það sama ætti að gilda í útvarpi og sjónvarpi og það væri óheimilt að blanda saman kostun og einhverju efni úr auglýsingum, svo sem skilti, myndskeiði eða hljóðrásum.

Í vor lagði ég svo fyrirspurn fyrir hæstv. núv. menntamálaráðherra um þetta sama efni, þ.e. á hvern hátt stjórnvöld hefðu fylgt því eftir að útvarps- og sjónvarpsstöðvar færu að kostunarreglum 21. gr. útvarpslaganna. Hæstv. ráðherra svaraði því til að útvarpsréttarnefnd hefði það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og þar á meðal útvarpssendingum í íslenskri lögsögu. Hún hafði þá nýverið skipað nýja útvarpsréttarnefnd, þ.e. hinn 1. október 2004 og hún upplýsti þingheim um að sú útvarpsréttarnefnd hefði ákveðið að láta fara fram könnum á því hvernig upplýsingum, fjarsölu og kostun helstu sjónvarpsstöðvanna sem störfuðu með leyfi nefndarinnar væri háttað. Á þeim tíma sagði hæstv. ráðherra að verið væri að kynna forsvarsmönnum sjónvarpsstöðvanna hvernig ætlunin væri að standa að könnuninni og mun útvarpsréttarnefnd hafa lagt á það áherslu að eiga gott samstarf og samvinnu við alla leyfishafa án þess þó að það kæmi niður á því eftirliti sem nefndinni væri ætlað að hafa með höndum samkvæmt útvarpslögum.

Hæstv. ráðherra svaraði mér því til að miðað væri við að niðurstaða umræddrar könnunar gæti legið fyrir á vormánuðum 2005. Nú þykir mér afar forvitnilegt að fá að heyra hvort niðurstöðurnar liggi fyrir og hverjar þær þá séu í helstu dráttum.