132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þótt ég hefði gjarnan viljað eins og aðrir sem hér hafa talað hafa þau skýrari. Árið 2003, 24. apríl, var talið af öllum að aðeins væru örfáar vikur í að fyrir lægi hvernig yrði unnið úr úttekt sem þá hafði verið gerð. Þá hafði verið skilað skýrslu sem heitir „Háborg græna geirans“ og ég minntist á hér áðan, en hana unnu Árni Magnússon, Björn Jónsson og hv. þm. Kjartan Ólafsson, og þar kemur skýrlega í ljós að húsnæðið sem skólinn býr við er að langstærstum hluta ónýtt. Það hefur ekki verið byrjað á endurnýjun þess, það hefur dregist og nú eftir að skólinn hefur verið sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands þá óttast menn, svo það sé nú bara sagt eins og staðreyndirnar eru, að þetta nám sem hefur lögheimili í Ölfusinu verði fært.

Auðvitað er það þannig að það má alltaf taka lögheimili upp og færa til. En Garðyrkjuskólinn á sér margra áratuga sögu og hefur byggst upp á þessum stað og þrátt fyrir erfiðar aðstæður hvað húsakost varðar staðið geysilega vel á síðustu árum. Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að fara með starfsmenntabrautirnar frá Reykjum. Það er afar mikilsverð yfirlýsing. Það sem við þurfum núna er stuttur tími þar sem tekin verður ákvörðun um með hvaða hætti verður farið í endurbyggingu á því húsnæði sem fyrir er í takt við þá skýrslu sem unnin var 2002. Þar höfum við grunninn til að byggja á þannig að við þurfum ekki langan tíma. Síðan þarf hæstv. ráðherra að breyta reglugerðum skólans þannig að græni geirinn eigi sinn fulltrúa í háskólaráði. Ég held að á því sé mikil nauðsyn því innan græna geirans eru ákveðnar fagstéttir sem falla alls ekki undir landbúnað, ef svo má orða það.