132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ástæðuna fyrir þeirri fyrirspurn sem ég beini til hæstv. landbúnaðarráðherra má rekja til þess sem fjallað er um í Bændablaðinu sem kom út í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur Landsbankanum hefur samkeppni lánastofnana um að veita bændum lánafyrirgreiðslu aukist umtalsvert. Bændum er boðið til viðræðna um að koma í viðskipti og það skapar tækifæri sem vert er að skoða.“

Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þeir bændur sem eru í viðskiptum við Lánasjóð landbúnaðarins við sölu hans þurfi ekki að greiða stimpilgjöld til ríkissjóðs eða þeir bændur sem vilja flytja lán sín frá nýjum eiganda sjóðsins til annars banka. Fyrirspurnin snýr að jafnstöðu skuldara við Lánasjóð landbúnaðarins við sölu hans gagnvart öðrum lánastofnunum almennt vegna sölunnar, þ.e. hver staða þeirra sé óski þeir að færa viðskipti sín til annars aðila, þ.e. fá tilboð í lánasafn sitt við Lánasjóð landbúnaðarins t.d. frá þremur eða fjórum öðrum lánastofnunum, og að hagstæðasta tilboðið sem þeir fái í lánin sé t.d. ekki frá Landsbanka Íslands sem keypti lánasjóðinn, en Landsbanki Íslands hefur það forskot að þurfa ekki að borga stimpil- og lántökugjöld til þessara lána. Sú stofnun sem þeir gerðu samninginn við hefur nú hefur verið seld og lánin þar með einnig og bændur vilja fá frjálsar hendur með að færa sig til annarra lánastofnana, bjóði þær betur en Landsbankinn sem keypti stofnunina.

Þetta væri það réttlætismál fyrir bændur og einnig gagnvart öðrum lánastofnunum og gagnvart þeim sem vilja flytja lán sín, fái þeir hagstæðara tilboð um að þurfa ekki að greiða til að mynda ný lán, lántökukostnað og stimpilgjöld sem hér er spurt um. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort þetta hafi verið rætt við þessa sölu og hvort hann sé með málið á sinni könnu.