132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Byggðakvóti fyrir Bíldudal.

229. mál
[20:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Fáir ráðherrar hafa byrjað jafnilla og hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég minnist þess að hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, byrjaði illa. En hann sá að sér. Nú veltur á því hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra muni sjá að sér. Það mun ráðast m.a. af svörum hans hvað varðar byggðakvóta til Bíldudals hvort þessi ágæti maður ætli að sjá að sér hvað varðar sína stefnu.

Það er vert að rifja það upp að nánast fyrir hverjar einustu kosningar hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra sem frambjóðandi lofað því að hann muni ekki styðja óbreytt kvótakerfi. Síðan hefur hann lofaði hann því fyrir einar kosningar að hann mundi ekki styðja að hætt yrði við þorskaflamarkið. Síðan lofaði hann einnig því fyrir kosningar eða gaf það í skyn sterklega að hann mundi standa vörð um sóknardagakerfið. Allt hefur þetta þessi ágæti hæstv. sjávarútvegsráðherra svikið, því miður. En nú hefur hann yfir að ráða 12 þúsund tonnum sem hann getur veitt til byggða landsins sem hafa orðið fyrir barðinu á vondu kvótakerfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hann hefur yfir þeim aflaheimildum að ráða.

Nú er það svo að það er þorp á Vestfjörðum sem stendur afar illa, Bíldudalur. Þar hefur fiskvinnsla legið niðri frá því í sumar og það hefur komið fram á fundum með þingmönnum kjördæmisins að það sem þar á vantar til að hægt sé að hefja vinnslu á ný séu aflaheimildir. Nú veltur á því hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra muni standa með fólkinu á Bíldudal og veita því rétt til að sækja sjóinn. Hæstv. ráðherra hefur yfir þessu að ráða. Ég vona svo sannarlega að hann hafi eitthvað fram að færa í umræðunni en fari ekki að drepa málum á dreif með einhverju þvaðri út og suður. Það verður örugglega fylgst með svörum hæstv. ráðherra, þ.e. því hvað hann hafi fram að færa. En við þingmenn Norðvesturkjördæmis erum búnir að fá það á hreint á fundum m.a. með atvinnuþróunarfélaginu fyrir nokkrum vikum síðan að það er þetta sem vantar, þ.e. aflaheimildir og hæstv. ráðherra getur veitt fólkinu á Bíldudal þessar aflaheimildir ef hann kærir sig um. En ég er ekkert viss um að hann muni gera það. Ég tel að hann vilji frekar halda í höndina á LÍÚ og muni þess vegna ekki veita fólkinu þessar heimildir.

En nú reynir á hvort hæstv. ráðherra ætlar að veita byggðarlaginu aflaheimildir og þannig að þar sé hægt að hefja störf á ný.