132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Togveiði á botnfiski á grunnslóð.

242. mál
[20:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir greinargóð svör við fyrirspurn minni og einnig hv. þingmönnum og öðrum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það gilda reglur, togveiðiheimildir eru lögbundnar, þó rétt sé að hæstv. ráðherra megi takmarka togveiði enn frekar en lögheimildir gera ráð fyrir. En það gilda engar samræmdar reglur. Það var það sem mér fannst ég geta lesið úr svari hæstv. ráðherra, að það gilda ákveðnar reglur en það gilda engar samræmdar eða gegnsæjar reglur um hvar sé heimilt að veiða með botntrolli innan 12 mílna og hvar ekki. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig kannski ef ég fer með rangt mál en ég held að togveiðar séu almennt bannaðar innan 12 mílna annars staðar en fyrir Suður- og Vesturlandi. Það sé meira um það að ekki sé heimilt að fara á tiltölulega stórum skipum upp að 3 mílum annars staðar við landið.

Ráðherra hefur einnig heimildir til að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og maður veltir fyrir sér hvort ráðherrann ætli að skoða það eitthvað nánar og skoða í alvöru að grunnslóðin verði frekar fyrir staðbundin veiðarfæri en togbátunum stóru verði ýtt út fyrir 12 mílur. Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að Hafró hefur svo sem ekki lagt til neinar frekari takmarkanir á togveiðum. En þar sem í raun ekki gilda neinar samræmdar reglur þá veltir maður fyrir sér hverju ráðgjöf Hafró ráði í því efni. Ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að oft og tíðum eru það hagsmunirnir og hvernig þetta hefur þróast á hverjum stað fyrir sig. En markaðurinn gerir kröfur um ákveðið hráefni í dag. Það er vaxandi línuútgerð og því er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að mæta kalli tímans og skoða upp á nýtt heimildir togveiðiskipa til að fara upp að 3 mílum.