132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2004.

[11:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisendurskoðun er mjög mikilvæg stofnun. Í áranna rás hefur margt mjög gott frá henni komið. Ég hef alla tíð verið einarður stuðningsmaður þeirrar stofnunar og er svo enn þótt það sé sitthvað sem ég vilji gagnrýna í störfum hennar. Hún þarf að standa vel að vígi, það þarf að vera vel að henni búið og það er mjög mikilvægt að hún sé hafin yfir allar ásakanir um hlutdrægni, að hún sé hafin yfir allan pólitískan vafa. Ég hef í sjálfu sér ekki efasemdir um pólitískan heiðarleika ríkisendurskoðunarmanna en í sumar fór stofnunin engu að síður inn á grátt svæði. Blandaðist inn í stjórnmálaumræður í þjóðfélaginu og varð að því er ég tel leiksoppur í pólitískum átökum hér í landinu. Ríkisendurskoðun var í sumar misnotuð af framkvæmdarvaldinu og ég kem að því síðar.

Mér hefur fundist Ríkisendurskoðun í mörgum þeim skýrslum sem frá henni hafa komið vera allt of lin. Ekki vera nægilega gagnrýnin í umfjöllun sinni og ekki nægilega beinskeytt eins og hún hræðist að taka á málum sem eru brennandi í stjórnmálaumræðunni. Ég nefni t.d. athuganir sem gerðar voru á einkavæðingunni, einkavæðingu bankanna t.d. Ég nefni skýrslu sem að mörgu leyti var ágæt og var unnin að frumkvæði mínu og þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um hjúkrunarheimili og fjármögnun þeirra og sérstaklega vikið að hjúkrunarheimilinu Sóltúni hf. Ég hafði beint ákveðnum spurningum til Ríkisendurskoðunar. Það var ekki svo að þeim væri öllum svarað. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað valdi því að menn fari eins og köttur í kringum heitan graut þegar kemur að heitum pólitískum málum. Mér hefur fundist þetta því miður vilja brenna við í of mörgum skýrslum sem hafa komið frá Ríkisendurskoðun í seinni tíð. Mér hefur fundist það. Ég er þar með og vil alls ekki gera lítið úr því góða starfi sem Ríkisendurskoðun hefur innt af hendi á ýmsum sviðum. Ég ítreka að margt hefur frá henni komið sem hefur verið afbragðsvel unnið. En þetta er gagnrýni sem ég hef áður komið fram með og vil halda til haga.

Síðan er það hið gráa svæði, hið pólitíska sprengjusvæði sem Ríkisendurskoðun hélt út á í sumar, eða öllu heldur var leidd út á í sumar. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um þær deilur sem risu um hæfi hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands til S-hópsins. Þar kom Ríkisendurskoðun fyrir nefnd þingsins, sendi frá sér minnisblöð sem urðu tilefni til mikilla umræðna á opinberum vettvangi í sumar. Þetta varð m.a. til þess að stjórnarandstaðan fékk virta lögmenn til að gera úttekt á aðkomu Ríkisendurskoðunar að þessu máli. Í þeirri úttekt, sem unnin var af Sif Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanni og Birni L. Bergssyni hæstaréttarlögmanni, segir m.a. í niðurstöðum, með leyfi forseta:

„Samantekin niðurstaða okkar er sú að minnisblað Ríkisendurskoðunar um hæfi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, til þess að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins sé verulegum annmörkum háð.“

Ríkisendurskoðandi áréttaði margoft að hann liti svo á að svör um hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa væri lögfræðilegt álitaefni sem löggjafinn hefði ekki ætlað þeirri stofnun. Engu að síður komst ríkisendurskoðandi að þeirri niðurstöðu að eins og þessu tiltekna máli væri háttað væri eðlilegt að stofnunin kæmi að þessu sem lið um afmarkaða þætti í stjórnsýsluendurskoðun.

Hvað um það, ég ætla ekki að fara ítarlega inn í efnisatriði þessa máls en vil þó nefna að í fjölmiðlum urðu miklar deilur þar sem m.a. var fjallað um aðför að trúverðugleika Ríkisendurskoðunar og stoðum lýðræðis og réttarríkis. Vitna ég þar í fyrirsögn í grein eftir hv. þm. Jónínu Bjartmarz í Morgunblaðinu. Og hér er önnur þar sem talað er um að ómaklega sé vegið að Ríkisendurskoðun og vitnað í bréf og álitsgerðir sem frá Ríkisendurskoðun komu þar sem stofnunin var að bera hönd fyrir höfuð sér.

En hvers vegna nefni ég þetta? Jú, það er eðlilegt þegar fyrir þingið kemur skýrsla frá Ríkisendurskoðun. En markmiðið með þessari umræðu af minni hálfu núna er þó einnig annað. Ég tel að þetta form sem við höfum á að ræða skýrslur Ríkisendurskoðunar sé allsendis óviðunandi. Hér hætti ég að ræða efnisþætti málsins að hluta til vegna þess að ríkisendurskoðandi getur ekki komið og svarað fyrir sig. Í rauninni er óeðlilegt að hæstv. forseti þingsins þurfi að svara fyrir þessi atriði. Ég er einfaldlega ekki að stilla aðilum upp sem gagnstæðum fylkingum í þeim efnum, alls ekki. Ég ætlast ekki til svara frá hendi hæstv. forseta um þetta efni. En ég tel að við þurfum að finna annað form þar sem við efndum til opinna málfunda, þingnefnda á vegum forsætisnefndar undir forræði forsætisnefndar og hugsanlega með aðild allsherjarnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Það kæmi vel til álita. Þessir fundir væru opnir fjölmiðlum og fréttaflutningur væri af þeim þar sem farið væri yfir þær skýrslur sem frá Ríkisendurskoðun kæmu. Ríkisendurskoðanda gæfist kostur á að svara fyrir sig og hugsanlega einnig þeim aðilum sem hann beinir spjótum sínum að eða gagnrýni sinni að í þeim skýrslum sem er um úttekt á einstökum stofnunum. Það yrði eðlilegt. Þannig yrði þetta starf miklu meira lifandi og öllum hlutaðeigandi aðilum gæfist þá kostur á að svara gagnrýni frá þess vegna ríkisendurskoðanda sem þætti ómakleg eða fleiri hliðar þyrftu að koma fram á. Eins er þegar hlutir af því tagi sem ég vitna til frá í sumar gerast, að um þá geti farið opin, lýðræðisleg og málefnaleg umræða.

Hæstv. forseti. Ég tel að það sem gerðist í sumar séu mjög alvarlegir atburðir og ég fyrir mitt leyti er ekki búinn að segja mitt síðasta orð í því efni. Við höfum leitað til stofnana sem heyra undir Alþingi til að fara í saumana á þeim alvarlegu ásökunum sem settar voru fram á hendur hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni í tengslum við einkavæðingu ríkisbankanna. Umræðu um það mál er ekki lokið, henni er ekki lokið. En ég vildi víkja að þætti Ríkisendurskoðunar í umræðunni frá í sumar, en í stað þess að halda hér langar tölur um efnisþætti málsins vil ég reyna að beina umræðunni inn í þann farveg að við finnum form sem leiðir okkur inn á vitlega umræðu um þessi mál.