132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:34]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki skilið hvernig þingmenn geta talað um það sem eitthvað lítið að hægt sé að stytta jafnfjölfarna leið og milli Akureyrar og Reykjavíkur um 40 km. Það er ekkert lítið, það er mjög mikið. Ég skil ekki að menn séu að gera lítið úr því.

Ég vil í annan stað segja að ég áttaði mig heldur ekki á því sem hv. þingmaður sagði þegar hann talaði um að stytting leiðarinnar frá Akureyri eða Skagafirði í Borgarfjörð kæmi ekki að nógu miklum notum nema vegur yrði lagður um Kaldadal til Reykjavíkur um Þingvöll. Sá vegur er til. Hótelbílar komast þá leið, einkabílar komast þá leið. En með því að byggja upp Uxahryggi er verið að beina umferðinni frá Húsafelli sem auðvitað skaðar þá ferðaþjónustu sem þar er verið að reyna að byggja upp. En ég er að tala um það að með því að leggja veg frá Húsafelli til Skagafjarðar yrði þar mjög mikil miðstöð ferðaþjónustu og mundi opna fyrir margvíslega möguleika í tengslum við jökulinn og alla þá jökla sem þar eru og allar þær miklu náttúruminjar sem þarna eru. Þá er ég að tala um Langjökul, ég er að tala um Surtshelli, ég er að tala um Arnarvatnsheiði og þar fram eftir götunum þannig að ég er að tala fyrir því að auka möguleika Vesturlands í ferðaþjónustunni. Ég er undrandi á því að þingmenn Vesturlands taka ekki undir þegar ég er að vekja máls á þessu.