132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:42]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að gera ágætlega grein fyrir tillögu sinni um vegaframkvæmdir þó að ég verði að deila því með þingheimi að sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að sú tillaga sé einhver versta hugmynd um vegaframkvæmdir sem fram hefur komið lengi.

Ég vil í upphafi máls míns fá að fagna þeirri uppgjöf sem kemur fram hjá tillöguflytjendum hvað varðar staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík, og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vakti athygli á að þar er nánast horfst í augu við þann óumflýjanlega veruleika að ungum kynslóðum í höfuðborginni verði fengin Vatnsmýrin til búsetu og atvinnu á komandi árum og áratugum, að innanlandsflugið flytjist eðlilega til Keflavíkur. Vissulega er fagnaðarefni að hv. þm. Halldór Blöndal og meðflutningsmenn hans séu smátt og smátt að gera sér grein fyrir þessum óumflýjanlega veruleika. Það verður þó að hafna þeirri fullyrðingu að það þýði að innanlandsflugið leggist af. Það hefur komið fram áður hjá forstjóra innanlandsflugsins að flutningur þess til Keflavíkur kunni að leiða til 30% samdráttar í fluginu og þó það kunni að vera nokkuð umhendis eru það auðvitað engin endalok fyrir innanlandsflugið.

Sú tillaga sem hér er uppi um vegagerð yfir Stórasand var flutt áður á síðasta þingi og kynnt í almennri umræðu eins og fram hefur komið. Ég held að skemmst sé frá því að segja að sú hugmynd hafi meira og minna sokkið eins og steinn til botns eða a.m.k. fallið í ákaflega grýtta jörð og að hún sé að flestra áliti nú um stundir óraunhæf hugmynd, enda er það ekki svo að hér nenni margir til umræðunnar. Við stöndum frammi fyrir þunnskipuðum þingsal og heldur lítill áhugi orðið á þessum vegagerðarhugmyndum eftir að þær hafa fengið almenna umræðu. Fyrir því eru eins og ég segi margar ástæður. Ein þeirra er sú að vegstæðið sem verið er að leggja til er illa þekkt og lítið kannað á Stórasandi m.a. hvað veðurfar varðar. Það er auðvitað ekki tilviljun að þar uppi eru litlar gróðurvinjar að finna. Það gerir veðráttan í landinu og þau hörðu öfl sem hafa leikið landið þar og geta náttúrlega leikið vegfarendur með sama hætti. Það er takmarkað gagn að styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur ef hún liggur um veðravíti sem vegna slíkra aðstæðna er stóran hluta ársins torfarnari og seinfarnari þó að hún sé styttri í kílómetrum en leiðir niðri á láglendinu í minni hæð yfir hálendið.

Í öðru lagi er, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur bent á, það að nefna að það liggja fyrir ýmsir þættir sem geta orðið til þess að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar á núverandi leið sem eru miklu kostnaðarminni og óumdeildari og liggja um þekktari svæði heldur en þessi og eru því miklu nærtækari.

Í þriðja lagi er rétt að nefna að við stöndum frammi fyrir margvíslegum vegaframkvæmdum sem hljóta að vera miklu framar í forgangsröðinni en þessi.

Í fjórða lagi féll hugmyndin meira og minna í grýtta jörð vegna þeirrar staðreyndar að ef í þá veglagningu yrði farið, og síðan um Þingvöll eins og lýst hefur verið, mundu menn sneiða þessa flutningsleið fram hjá stórum hluta Vesturlands og Norðurlands vestra. Það er auðvitað vond byggðastefna að einangra þau svæði, sérstaklega Norðurland vestra, meira í samgöngum með því að reyna að sneiða hjá því landsvæði. Nær væri að byggja leiðina upp og stytta hana þar sem hún nú er. Það væri nærtækara, a.m.k. um nánustu framtíð.

Í fimmta lagi hafa menn náttúrlega séð ýmsa annmarka á því að beina þungaflutningum sérstaklega um Þingvelli. Þótt það sé rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að viðbúið sé að umferð sumarhúsaeigenda á Laugarvatni muni í ríkari mæli fara um Þingvöll og þjóðgarðssvæðið á næstu árum, með vegabótum sem þar verða, þá er sú umferð náttúrlega annars eðlis en meginflutningabraut til Akureyrar með þeirri þungaflutningaumferð sem menn þekkja af þjóðvegunum, eftir að sjóflutningar hafa meira og minna lagst af og kvartað hefur verið undan.

Í sjötta og síðasta lagi, sem er þó ekki minnst um vert, held ég að það hafi mætt allnokkurri andstöðu að ætla að malbika yfir Arnarvatnsheiðina vöruflutningabraut til Akureyrar þar sem fari um þungaflutningabifreiðar með vöruflutninga til þess þéttbýla staðar. Það eru sannarlega miklar ranghugmyndir ef menn telja að veiðivötnin á Arnarvatnsheiðinni verði sérstök ferðamannaparadís við að leggja vöruflutningaleiðir yfir þau ósnortnu víðerni og þá fallegu náttúru. Það er nánast klám, virðulegur forseti, að fara með ljóð Jónasar Hallgrímssonar undir slíkum tillöguflutningi. Ég held a.m.k. ekki að skáldið hafi haft í huga tíu hjóla trukka þegar hann orti um klárinn eða fákinn, eftir atvikum, sem beita mætti á Arnarvatnsheiði. Sannarlega yrði því svæði enginn greiði gerður með slíkri umferð þar yfir um þótt það kynni að stytta vöruflutningaleiðina til Akureyrar og að um óviss veðrasvæði sé að fara stóran hluta árs.

Þegar ég sá þennan tillöguflutning hv. þingmanns fyrr á þessu kjörtímabili flutti ég með ýmsum öðrum tillögu til þingsályktunar um friðun Arnarvatnsheiðar. Ég tel að það sé kannski stærsta eyðan sem við höfum í náttúruverndaráætlun fyrir þetta land okkar, að sú mikla náttúruperla sem Arnarvatnsheiðin er skuli ekki löngu orðin friðlýst. Hún er einstæð í allri sinni dýrð og þangað er mikla unun og skjól að sækja úr amstri hversdagslífsins. Svæðið hefur mikla sérstöðu fyrir fólk úr öðrum löndum og heimsálfum og vafalaust, ef rétt er að staðið, mun vaxandi áhugi á að sækja þangað eftir því sem samgöngur við Húsafell og það svæði héðan frá höfuðborginni batna.

Virðulegi forseti. Ég held að þeirri hugmynd sem hér er mælt fyrir hafi sem betur fer verið hafnað í hinni almennu umræðu. En það hefur verið gaman að fylgjast með þingreyndum hv. þm. Halldóri Blöndal reyna að sveigja hjá og neita því að þetta snerti nokkuð Þingvelli og Norðvesturland. Það hefur verið fimlega gert en árangurslaust að ég held.