132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ekki svo að ég hafi lagst gegn þessari tillögu þó að ég telji að það gerist ekki á næstunni sem hér er lagt til. Ég held að þeir sem standa vilja fyrir þessum framkvæmdum muni taka afstöðu til þess á ný þegar þeir sjá hvernig vegamálum verður háttað að öðru leyti og hvort þeir telji fjárhagslega skynsamlegt að fara í þá framkvæmd.

Ég ætla líka að leiðrétta það að ég hafi lagst gegn þeirri leið sem hv. þingmaður nefndi að sveigja Kjalveg ofan í Skagafjörð. Það hef ég ekki sagt og tel fulla ástæðu til að skoða, eins og hv. þingmaður nefndi, að þannig verði staðið að málum.

Ég ætla að koma því á framfæri að þótt menn vilji fara þessa leið mun hún ekki spara í neinu uppbyggingu á þjóðvegi 1 á leiðinni Reykjavík – Akureyri vegna þess að sú leið verður auðvitað að svara þeim þörfum sem þar eru allt árið hvernig sem veðri háttar. Menn munu ekki fara um fjallvegi eins og þann sem hér er lagt til að lagður verði yfir hörðustu vetrarmánuðina og þá þarf þjóðvegur 1 að þjóna þeim flutningum sem um er að ræða.

Loks vil ég koma því að að þegar ég talaði um möguleikana á að láta þjóðveg 1 liggja um byggðarlögin fyrir norðan og í gegnum Tröllaskaga þá er það álíka löng leið og leiðin norður er núna á þjóðvegi 1 samkvæmt þeim athugunum sem gerðar voru á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar í sambandi við skipulag sem þar var unnið.