132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það sem hefur komið fram í fréttum um helgina um þetta mál er það sem áður var vitað, að þessar samningaviðræður Íslands og Bandaríkjanna ganga hægar en við höfðum gert okkur vonir um og að það er lengra bil á milli aðila en menn höfðu áður talið. Það eru í sjálfu sér engar stórar eða nýjar fréttir þó að niðurstaðan sem varð í síðasta mánuði hafi auðvitað orðið okkur vonbrigði.

Við gerum okkur áfram vonir um að hægt verði að koma þessum málum í farveg sem er viðunandi fyrir báða aðila. Hér er um að ræða samning um framkvæmd sem byggist á varnarsamningnum frá 1951 og við vitum ekki annað en að gagnaðilinn, þ.e. Bandaríkjastjórn, hafi fullan hug á því að efna þann samning eins og verið hefur. Útfærsluna á eftir að finna og hún mun vonandi finnast í þeim samningaviðræðum sem fram undan eru.

Það er athyglisvert að formaður Samfylkingarinnar skuli fitja upp á þessu máli í dag, í sömu viku og umræður munu fara fram um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismálin. Það er athyglisvert vegna þess að umræddur formaður, hv. formaður Samfylkingarinnar, flutti sjálf mikla ræðu á flokksfundi hjá sér um helgina án þess að minnast einu einasta orði á varnarmál sem er að sjálfsögðu í samræmi við þá staðreynd að í stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar frá því í maí á þessu ári er ekki vikið orði að varnarmálum frekar en að þau væru ekki til.

Það er ástæða til að fagna hinum nýja áhuga formanns Samfylkingarinnar á þessum mikilvægu málum.