132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:23]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að ríkisstjórnin hefði ekki unnið að því að skilgreina varnar- og öryggishagsmuni þjóðarinnar. En hún hefur sannarlega unnið í því að skilgreina sína eigin varnar- og öryggishagsmuni í þessari umræðu. Það er greinilegt að menn hafa ákveðið að nú væri sókn besta vörnin.

Hér hafa engin svör komið fram um það sem ég fjallaði um áðan, þ.e. hvaða skilaboð fælust í því sem forsætisráðherra sagði á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins.

Ráðherrann er í vinnu fyrir þjóðina. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru í vinnu fyrir þjóðina. Þeir eru í ríkisstjórn sem tók að sér að vinna að þessum málum og þeir eiga að skila árangri. Þeir eru ekki að skila árangri, þeir flækjast með þetta mál sín á milli og fyrst núna er að renna upp fyrir þeim, eftir fimm ár, að ekki sé sami samningsvilji af hálfu Bandaríkjamanna og þeir áður töldu. Tala menn ekki saman í þessari ríkisstjórn? Hér hafa ýmsir ráðherrar farið með þessi mál, koma þeir ekki réttum skilaboðum sín á milli? Hvernig stendur á því að það er að renna upp fyrir mönnum núna, fimm árum síðar, að ekki sé þessi vilji til samninga sem þeir áður töldu? Er ekki alltaf sami maðurinn sem leiðir samningaviðræðurnar af hálfu stjórnvalda? Hvernig stendur á því að þetta er að renna upp fyrir mönnum núna?

Ríkisstjórnin er með flækjufót í þessu máli og hún nær ekki niðurstöðu og það er það sem var í rauninni verið að segja okkur á þessum miðstjórnarfundi Framsóknarflokks um helgina. Hún nær ekki niðurstöðu í málinu í samræmi við þau samningsmarkmið sem ríkisstjórnin setti sér. Og það þýðir ekki að koma hér og spyrja Samfylkinguna um þessi mál og segja: Það er mikilvægt að standa saman, þegar menn hafa ekkert gert til þess að ná samstöðu í þessu máli, ekki farið í að skilgreina varnarhagsmunina og ekki farið í það að ná fólki saman um það hvernig ætti að standa að málum gagnvart Bandaríkjamönnum. Þá þýðir ekki að koma hér og biðja um (Forseti hringir.) samstöðu í málinu.