132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg róað hv. þingmann með því að ég er búinn að lesa frumvarpið ágætlega og tel mig skilja það nokkuð vel. Ég vil aðeins árétta þetta: Við sem erum að gagnrýna þetta frumvarp erum í reynd ekki að segja að við viljum endilega óbreytt ástand að öllu leyti, alls ekki. Við viljum breytingu en í aðra átt en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn vilja ganga. Við viljum ekki festa einkaréttarákvæðin í sessi. Við viljum reyna eftir því sem kostur er að losa um þau.

Ég nefndi áðan lögin frá 1998 sem ég tel að hafi verið eitt mesta óheillaskref sem stigið hefur verið og gengur meira að segja lengra, af því að talað var um Texas, í að tryggja eignarhald á auðlindum neðan jarðar, gengur lengra en Texaslöggjöfin gerir því að íslenska ríkisstjórnin vildi fara enn þá lengra niður en Texasbúar þó gerðu þegar þeir skilgreindu hvað landeigandi ætti að eiga tilkall til neðan jarðar.

Ég vil bjóða hv. þingmanni á ráðstefnu sem haldin verður í lok vikunnar klukkan níu. Þá kemur David nokkur Hall sem er prófessor við Háskólann í Greenwich í Englandi og flytur fyrirlestur um þetta hugðarefni hv. þingmanns: Hver er reynslan af einkavæðingu á vatninu? Ég vona að hv. þingmaður láti sjá sig á þessari ráðstefnu því að auðvitað eigum við að ræða það málefnalega hvað sé rétt og hvað rangt í þessum efnum.